Erlent

Reyndi að slökkva eld í flugvélinni

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA
Einn flugmannanna í flugvél EgyptAir 804, sem brotlenti í Miðjarðarhafið í maí, reyndi að slökkva eld í flugstjórnarklefanum skömmu áður en flugvélin brotlenti. Samkvæmt franska blaðinu Le Figaro, kemur þetta fram á hljóðupptökum úr flugstjórnarklefanum.

Flugvélin var á leið frá París til Kaíró þegar hún hvarf af ratsjám. 66 voru um borð í vélinni og létust allir.

Sérstaklega útbúið skip þurfti til að finna flugrita flugvélarinnar.Vísir/GraphicNews
Samkvæmt umfjöllun BBC eru ummerki um eld á braki sem fundist hefur úr flugvélinni. Báðir svokallaðir svörtu kassar flugvélarinnar styðja sjálfvirku skilaboðin sem send voru frá flugvélinni um að reykskynjarar hefðu farið í gang skömmu áður en flugvélin brotlenti, en engin neyðarskilaboð voru send.

Ekki er vitað hvers vegna flugvélin fórst, en franskir rannsakendur hafa ekki fundið vísbendingar um að hryðjuverk hafi verið að ræða. Á vef Independent kemur fram að einn flugritanna hafi tekið upp nokkur skilaboð sem gefi í skyn að nokkur vandamál hafi komið upp.

Flugritarnir voru töluvert skemmdir þegar þeir fundust. Í fyrstu var ekki hægt að hala niður gögnum af þeim og hafa þeir verið í viðgerð í Frakklandi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×