Erlent

Hundruð Mexíkóa strandaglópar dögum saman á flugvellinum í Madríd

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Flestir þeirra hafa neyðst til þess að sofa á flugvellinum.
Flestir þeirra hafa neyðst til þess að sofa á flugvellinum. Vísir/EPA
Nærri tvö hundruð Mexíkóar hafa verið strandaglópar á Barajas-alþjóðaflugvellinum í Madríd dögum saman, sumir í allt að tvær vikur. Bíða þeir eftir að komast heim til Mexíkó úr fríi á Spáni en vegna flugmiða þeirra komast þeir hvorki lönd né strönd.

Allir eiga strandaglóparnir það sameigilegt að hafa ferðast á vegum flugfélagsins Aeromexico á svokölluðum standby-miðum, en með slíkum miðum kemst maður með vélinni, sé á annað borð laust sæti.

Nú er hins vegar hápunktur ferðatímans hjá hinum almenna Mexíkóa og því flestar vélar yfirfullar. Því hafa strandaglóparnir enn ekki fengið sæti í flugvélum á leið heim til Mexíkó. Flestir þeirra sem bíða eftir að komast hafa mátt dúsa á flugvellinum enda hafa margir þeirra ekki efni á því að kaupa sér gistingu á hótelum.

Höfðu þeir óskað eftir því að Aeromexico myndi senda sérstaka flugvél eftir strandaglópunum en flugfélagið hefur ekki orðið við þeirri ósk. Yfirmenn flugfélagsins segja að þeir hafi varað þá sem strandaðir eru á flugvellinum í Madríd við að ferðast á standby-miðunum á hátindi ferðamannatímabilsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×