Nígería lenti í Brasilíu sex tímum fyrir leik sinn gegn Japan og vann í ótrúlegum leik. Brasilía olli vonbrigðum í sínum leik.
Nígeríumenn voru búnir að vera fastir í Atlanta í Bandaríkjunum en komust að lokum af stað til Manaus. Þrátt fyrir allt vesenið náði Nígería að vinna Japan, 5-4. Ótrúlegur leikur.
Oghenekaro Etebo lét þetta flugvesen ekki hafa nein áhrif á sig því hann skoraði fjögur mörk í leiknum.
Brasilía tók á móti Suður-Afríku og þrátt fyrir að hafa verið manni fleiri í hálftíma tókst Brasilíu ekki að skora. Markalaust þar og var baulað á Neymar og félaga eftir leikinn.
Fiji fékk svo á baukinn gegn Suður-Kóreu en sá leikur endaði 8-0 fyrir Kóreumennina.

