Viðskipti innlent

Endurkaup hlutabréfa fimmtungi meiri í ár

Sæunn Gísladóttir skrifar
Uppkaup félaga á eigin bréfum hafa numið 4,09 milljörðum króna það sem af er ári.
Uppkaup félaga á eigin bréfum hafa numið 4,09 milljörðum króna það sem af er ári. Vísir/GVA
Endurkaup skráðra félaga á Aðallista Kauphallarinnar eru orðin nítján prósentum meiri heldur en heildarendurkaup árið 2015, og er þeim ekki lokið. Sérfræðingur hjá IFS-greiningu segir þetta vísbendingu um að eigendur hafi trú á hlutabréfum sínum og telji að gengi hlutabréfa í fyrirtækjum sínum fari hækkandi.

Jóhann Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS-greiningu, taldi í fyrra að vísbendingar væru um að arðgreiðslur og endurkaup hefðu náð hámarki og yrðu minni í ár, eftir 64 prósenta aukningu milli ára.



Jóahnn Viðar Ívarsson, sérfræðingur hjá IFS-greiningu. Mynd/IFS
Arðgreiðslur og endurkaup hjá félögum á Aðallista Kauphallarinnar námu 28,4 milljörðum króna í fyrra og hafa numið 25 milljörðum króna það sem af er ári. Arðgreiðslum er lokið og voru þær minni í ár en í fyrra. Þær námu 20,9 milljörðum króna árið 2016, samanborið við 22,5 milljarða árið 2015 (18 milljörðum árið 2016 sé miðað við sömu félög og skráð voru árið 2015).

Uppkaup félaga á eigin bréfum hafa hins vegar numið 4,09 milljörðum króna, samanborið við 3,4 milljarða króna árið 2015. Endurkaupum er enn ekki lokið. Reitir eiga til að mynda tæplega nítján prósent eftir af kaupáætlun og Sjóvá fjörutíu prósent.

„Endurkaup ganga í bylgjum, meðal annars eftir hagsveiflunni og fyrirtækjakúltúr. Almennt er þetta talin önnur leið til að koma peningum til hluthafa, arðgreiðslan er ein leið. Einn af kostum endurkaupa umfram arðgreiðslur er að þá fá bara þeir hluthafar hópsins meiri pening sem kæra sig um það,“ segir Jóhann.

„Mörg félög líta á þetta sem leið til að hækka verðið á hlut á félögunum á markaði. Það getur skapað jákvæð hughrif, jákvæða stemningu gagnvart hlutabréfunum. Það má kannski segja að í einhverjum skilningi þá noti stjórnir félaga þetta sem leið til að pumpa upp gengið á bréfunum,“ segir hann.

Jóhann segir að þessi bylgja hafi verið viðvarandi síðustu þrjú, fjögur árin á Íslandi. „En reyndin er sú að þetta er bara góður díll ef félögin eru að kaupa sín eigin bréf á góðu verði, og verðhækkun verður á bréfunum. Aftur á móti ef verðmæti rekstrarins minnkar í framhaldinu þá hefur félagið eytt verðmætum við að kaupa þessi bréf.“

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×