Hágæða heimilishryðjuverk Sigríður Jónsdóttir skrifar 20. janúar 2016 13:00 Hilmir Snær Guðnason vinnur leiksigur í uppfærslu Borgarleikhússins á Hver er hræddur við Virginiu Woolf. Leikhús Hver er hræddur við Virginiu Woolf? Borgarleikhúsið Leikstjórn: Egill Heiðar Anton Pálsson Leikhópur: Margrét Vilhjálmsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Eysteinn Sigurðarson og Elma Stefanía Ágústsdóttir Leikmynd: Gretar Reynisson Búningar: Helga I. Stefánsdóttir Lýsing: Þórður Orri Pétursson Tónlist/Hljóðmynd: Margrét Kristín Blöndal Hljóð: Þórður Gunnar Þorvaldsson Þýðing: Salka Guðmundsdóttir Miðaldra hjónin Marta og Georg bjóða ungu pari í eftirpartí. En ekkert venjulegt eftirpartí því gestgjafarnir stunda tilfinningalegan skæruhernað sér til skemmtunar og áhorfendum Borgarleikhússins er boðið að fylgjast með kjarnorkukvöldi á heimili þeirra. Leikrit Edwards Albee er nánast óaðfinnanlega vel skrifað. Hrynjandi orðanna er eins og djassverk, nótur koma úr óvæntri átt en smellpassa inn í framvinduna. Hálfri öld eftir fyrstu frumsýningu er engin ellimörk að finna á þessu meistaraverki. Kjarnafjölskyldan, væntingar samfélagsins og feluleikir millistéttarinnar fá hér að kenna á því. Verkið er sýnt í örlítið styttri mynd en kjarninn heldur sér og þýðing Sölku Guðmundsdóttur er nautn fyrir eyrað. Marta er eitt af erkihlutverkum leiklistarsögunnar: Einungis allra færustu leikkonur ná taki á þessum hégómafulla og bugaða kvenmanni, föst í heimi sem aðrir hafa smíðað henni. Margrét Vilhjálmsdóttir er svo sannarlega ein af þeim. Augnaráð hennar er lamandi og líkamsbeitingin þróttmikil en þokkafull. Hún fremur leikrænan galdur á Nýja sviðinu þar sem tryllingurinn er tempraður með vitund um tilætlanir Mörtu og komandi leiki í valdatafli þeirra Georgs. Því Marta getur ekki án Georgs verið og Margrét fær svo sannarlega verðugan andstæðing en Hilmir Snær Guðnason fer á kostum í hlutverki sínu. Hann er allt í senn meinfyndinn, hættulegur og heillandi. Þessi ónytjungur hefur nefnilega tilfinningalega breidd en Hilmir Snær finnur bæði uppgjöf og reiði Georgs sem skilur að líf þeirra hjóna er ekkert nema innantómt leikrit. Stundum verður hamagangurinn of mikill en þetta er engu að síður leiksigur frá einum besta leikara þjóðarinnar. Grunlausu ungu hjónin, gestir þeirra Mörtu og Georgs, eru nafnlaus í uppfærslunni, sú áherslubreyting virkar sérstaklega vel. Á yfirborðinu virðast þau litlaus en fljótlega koma brestirnir í ljós. Elma Stefanía Ágústsdóttir og Eysteinn Sigurðarson virðast alltaf vera á annarri bylgjulengd, áhorfendur og þátttakendur til skiptis í stofustyrjöldinni. Þarna misstígur Egill Heiðar sig í leikstjórninni og virðist ekki hafa gefið þessum persónum, sem eru gríðarlega erfiðar, nægilegan gaum. Elma Stefanía gerir vel í hlutverki taugatrekktu yfirstéttarstelpunnar sem alltaf reynir að gera fólki til geðs en missir tökin eftir því sem næturdrykkjunni vindur fram. Eftir hlé nær hún taktinum og sýnir styrkinn sem leynist undir brothætta yfirborðinu. Eysteini Sigurðarsyni farnast ekki eins vel því hann er undarlega stífur í hlutverkinu, bæði hvað snertir framburð og líkamsbeitingu. Persónu unga mannsins er ætlað að vera skopstæling á stereótýpu en ekki eintóna. Heimili þeirra hjóna er rammað inn eins og hallandi málverk, ljósi mjúkviðurinn skapar hlýlegt yfirbragð en dýptin vísar til tómleika. Gretar Reynisson sýnir af hverju hann skarar fram úr sem leikmyndahönnuður, þó ekki nema fyrir listaverkið sem hangir í stofu hjónanna. Þórður Orri Pétursson litar síðan inn í eyðurnar með töfrandi lýsingu þar sem kaldir og heitir tónar blandast dimmum skuggum. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur passa fagurfræðinni vel, þar má sérstaklega nefna búning Mörtu í byrjun. Hljóðmynd og tónlist eru hugarsmíð Margrétar Kristínar Blöndal. Í byrjun sýningarinnar má heyra skemmtilega vísun í kvikmyndina frægu með Elizabeth Taylor og Richard Burton sem er mjög þakklátt fyrir þá sem þekkja til. En hljóðmyndin minnir reglulega á undirliggjandi drungann á heimilinu. Þórður Gunnar Þorvaldsson vinnur hljóðið á frumlegan hátt þar sem bergmálið ógnar á meðan glösin klingja. Eftir hlé breytist tónninn í verkinu; þagnirnar verða lengri, hljómfallið lægra og uppgjöf þeirra Mörtu og Georgs öllum sýnileg. Egill Heiðar Anton Pálsson hefur gríðargóð tök á framsetningunni og kryddar verkið með áhugaverðum augnablikum. Hann er einn af okkar bestu leikstjórum en fagurfræði hans er fantagóð. Heildaryfirbragðið er sterkt en þess væri óskandi að betur hefði verið hugað að samleiknum. Þrátt fyrir hatröm rifrildi, skefjalaust ofbeldi og djúpan harm brennur ást á milli Mörtu og Georgs, og allt þetta er sjón að sjá. Látalæti og leikir hjónanna afhjúpa hinar þrúgandi væntingar samfélagsins en er líka þrumandi fyndið. Þessi baneitraði heimiliskvartett er skylduáhorf. Egill Heiðar stýrir sýningunni af öryggi og hugviti en nokkrir veikir tónar trufla þó heildina. Niðurstaða: Besta sýning leikársins til þessa, þó ekki gallalaus. Menning Mest lesið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Stjörnufans þegar hundruð kíktu á forsýningu Iceguys 2 Bíó og sjónvarp Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Hrund Gunnsteins kaupir íbúð Viktors Bjarka og Álfrúnar Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Leikhús Hver er hræddur við Virginiu Woolf? Borgarleikhúsið Leikstjórn: Egill Heiðar Anton Pálsson Leikhópur: Margrét Vilhjálmsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Eysteinn Sigurðarson og Elma Stefanía Ágústsdóttir Leikmynd: Gretar Reynisson Búningar: Helga I. Stefánsdóttir Lýsing: Þórður Orri Pétursson Tónlist/Hljóðmynd: Margrét Kristín Blöndal Hljóð: Þórður Gunnar Þorvaldsson Þýðing: Salka Guðmundsdóttir Miðaldra hjónin Marta og Georg bjóða ungu pari í eftirpartí. En ekkert venjulegt eftirpartí því gestgjafarnir stunda tilfinningalegan skæruhernað sér til skemmtunar og áhorfendum Borgarleikhússins er boðið að fylgjast með kjarnorkukvöldi á heimili þeirra. Leikrit Edwards Albee er nánast óaðfinnanlega vel skrifað. Hrynjandi orðanna er eins og djassverk, nótur koma úr óvæntri átt en smellpassa inn í framvinduna. Hálfri öld eftir fyrstu frumsýningu er engin ellimörk að finna á þessu meistaraverki. Kjarnafjölskyldan, væntingar samfélagsins og feluleikir millistéttarinnar fá hér að kenna á því. Verkið er sýnt í örlítið styttri mynd en kjarninn heldur sér og þýðing Sölku Guðmundsdóttur er nautn fyrir eyrað. Marta er eitt af erkihlutverkum leiklistarsögunnar: Einungis allra færustu leikkonur ná taki á þessum hégómafulla og bugaða kvenmanni, föst í heimi sem aðrir hafa smíðað henni. Margrét Vilhjálmsdóttir er svo sannarlega ein af þeim. Augnaráð hennar er lamandi og líkamsbeitingin þróttmikil en þokkafull. Hún fremur leikrænan galdur á Nýja sviðinu þar sem tryllingurinn er tempraður með vitund um tilætlanir Mörtu og komandi leiki í valdatafli þeirra Georgs. Því Marta getur ekki án Georgs verið og Margrét fær svo sannarlega verðugan andstæðing en Hilmir Snær Guðnason fer á kostum í hlutverki sínu. Hann er allt í senn meinfyndinn, hættulegur og heillandi. Þessi ónytjungur hefur nefnilega tilfinningalega breidd en Hilmir Snær finnur bæði uppgjöf og reiði Georgs sem skilur að líf þeirra hjóna er ekkert nema innantómt leikrit. Stundum verður hamagangurinn of mikill en þetta er engu að síður leiksigur frá einum besta leikara þjóðarinnar. Grunlausu ungu hjónin, gestir þeirra Mörtu og Georgs, eru nafnlaus í uppfærslunni, sú áherslubreyting virkar sérstaklega vel. Á yfirborðinu virðast þau litlaus en fljótlega koma brestirnir í ljós. Elma Stefanía Ágústsdóttir og Eysteinn Sigurðarson virðast alltaf vera á annarri bylgjulengd, áhorfendur og þátttakendur til skiptis í stofustyrjöldinni. Þarna misstígur Egill Heiðar sig í leikstjórninni og virðist ekki hafa gefið þessum persónum, sem eru gríðarlega erfiðar, nægilegan gaum. Elma Stefanía gerir vel í hlutverki taugatrekktu yfirstéttarstelpunnar sem alltaf reynir að gera fólki til geðs en missir tökin eftir því sem næturdrykkjunni vindur fram. Eftir hlé nær hún taktinum og sýnir styrkinn sem leynist undir brothætta yfirborðinu. Eysteini Sigurðarsyni farnast ekki eins vel því hann er undarlega stífur í hlutverkinu, bæði hvað snertir framburð og líkamsbeitingu. Persónu unga mannsins er ætlað að vera skopstæling á stereótýpu en ekki eintóna. Heimili þeirra hjóna er rammað inn eins og hallandi málverk, ljósi mjúkviðurinn skapar hlýlegt yfirbragð en dýptin vísar til tómleika. Gretar Reynisson sýnir af hverju hann skarar fram úr sem leikmyndahönnuður, þó ekki nema fyrir listaverkið sem hangir í stofu hjónanna. Þórður Orri Pétursson litar síðan inn í eyðurnar með töfrandi lýsingu þar sem kaldir og heitir tónar blandast dimmum skuggum. Búningar Helgu I. Stefánsdóttur passa fagurfræðinni vel, þar má sérstaklega nefna búning Mörtu í byrjun. Hljóðmynd og tónlist eru hugarsmíð Margrétar Kristínar Blöndal. Í byrjun sýningarinnar má heyra skemmtilega vísun í kvikmyndina frægu með Elizabeth Taylor og Richard Burton sem er mjög þakklátt fyrir þá sem þekkja til. En hljóðmyndin minnir reglulega á undirliggjandi drungann á heimilinu. Þórður Gunnar Þorvaldsson vinnur hljóðið á frumlegan hátt þar sem bergmálið ógnar á meðan glösin klingja. Eftir hlé breytist tónninn í verkinu; þagnirnar verða lengri, hljómfallið lægra og uppgjöf þeirra Mörtu og Georgs öllum sýnileg. Egill Heiðar Anton Pálsson hefur gríðargóð tök á framsetningunni og kryddar verkið með áhugaverðum augnablikum. Hann er einn af okkar bestu leikstjórum en fagurfræði hans er fantagóð. Heildaryfirbragðið er sterkt en þess væri óskandi að betur hefði verið hugað að samleiknum. Þrátt fyrir hatröm rifrildi, skefjalaust ofbeldi og djúpan harm brennur ást á milli Mörtu og Georgs, og allt þetta er sjón að sjá. Látalæti og leikir hjónanna afhjúpa hinar þrúgandi væntingar samfélagsins en er líka þrumandi fyndið. Þessi baneitraði heimiliskvartett er skylduáhorf. Egill Heiðar stýrir sýningunni af öryggi og hugviti en nokkrir veikir tónar trufla þó heildina. Niðurstaða: Besta sýning leikársins til þessa, þó ekki gallalaus.
Menning Mest lesið Óhugnanlegt neyðarlínusímtal: „Hann var bara dáinn“ Lífið Datt í miðri sýningu á Ellý: „Eitt lélegasta fall leikhússögunnar“ Lífið „Þú varst að tala um Klausturmálið!“ Lífið Jay Leno illa leikinn og með lepp Lífið Frumsýning á Vísi: Villi Vill fer á kostum í tónlistarmyndbandi Luigi Tónlist „Þetta var það erfitt, að við vorum öll dofin“ Lífið Vilt þú taka þátt í nýjum þætti á Stöð 2? Lífið Stjörnufans þegar hundruð kíktu á forsýningu Iceguys 2 Bíó og sjónvarp Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Gagnrýni Hrund Gunnsteins kaupir íbúð Viktors Bjarka og Álfrúnar Lífið Fleiri fréttir Stúlkan með nálina: Hver gerir svona kvikmynd? Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira