Bíó og sjónvarp

Blaðamaður Moggans heggur í Ófærð

Birgir Olgeirsson skrifar
Benedikt Bóas Hinriksson, blaðamaður Morgunblaðsins, heggur í leikstjórann Baltasar Kormák í fjölmiðlapistli í Morgunblaðinu í dag vegna þáttaraðarinnar Ófærð sem sýnd er í Sjónvarpinu um þessar mundir. Um er að ræða eina dýrustu kvikmyndagerð sem Íslendingar hafa lagst í en kostnaður var áætlaður um milljarð króna.

Benedikt Bóas mætti í viðtali í Brennsluna á FM957 í morgun þar sem hann fór aðeins yfir hvað honum þykir vera að þessari þáttaröð, en þess má geta að búið er að sýna þrjá þætti af tíu.

Í fjölmiðlapistlinum segir Benedikt Bóas alltaf gaman að horfa á íslenskt efni en Ófærð lykti hins vegar af áhugamennsku. Finnst honum handritið ótrúverðugt, að því leytinu til að skip í íslenskri hafnsögu hefði aldrei þurft dómsúrskurð til að vera kyrrsett, lögreglumaður hefði aldrei tapað slagnum við hinn grunaða eins og hann var myndaður, lík hefði aldrei verið látið vera óvaktað í frystigeymslu og tæknideildin hefði alltaf komist á staðinn. Þá segir hann þáttaröðina sýna veruleika þar sem fjölmiðlar eru ekki til. 

Segir hann til að mynda persónu Ólafs Darra í þáttunum, lögreglumanninn Andra, hafa fengið skilaboð um að fréttakona frá RÚV vildi ná tali af honum. „En enginn frá Vísi, og enginn frá MBL og enginn frá DV,“ segir Benedikt og dregur þá ályktun að handritshöfundar Ófærðar hafi fallið í þá gryfju að halda að fjölmiðlar séu ekki til úti á landi. 

Heyra má þetta spjall í spilaranum hér fyrir ofan. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.