Viðskipti innlent

Isavia „ekki stolt“ af upplifun farþega í fyrra

Bjarki Ármannsson skrifar
Framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tugi milljarða króna endurspegla þann lærdóm sem Isavia hefur dregið af síðasta sumri, segir framkvæmdastjóri FLE.
Framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tugi milljarða króna endurspegla þann lærdóm sem Isavia hefur dregið af síðasta sumri, segir framkvæmdastjóri FLE. Vísir/Vilhelm/Pjetur
Framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli fyrir tugi milljarða króna endurspegla þann lærdóm sem Isavia hefur dregið af sumrinu í fyrra, þegar miklar tafir urðu á flugvellinum og álag á starfsfólk varð mjög mikið. Þetta kom fram í máli Hlyns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, á morgunverðarfundi fyrirtækisins í morgun.

„Við erum ekki stolt af þeirri upplifun sem farþegar lentu í síðastliðið sumar og höfum lært heilmargt af því,“ sagði Hlynur á fundinum.

Fundurinn var meðal annars haldinn til að kynna fyrirhugaðar framkvæmdir á flugvellinum í ár, sem fjallað var um í Fréttablaðinu í dag.

Fjöldi farþega sem komu til landsins í gegnum flugvöllinn í fyrra var mun meiri en búist var við og sagði Hlynur það stafa af því að sætanýting stærstu flugfélaga sem fljúga til landsins var töluvert betri en gert var ráð fyrir í farþegaspám.

Miklar tafir urðu á flugvellinum síðastliðið sumar og álag á starfsfólk varð mjög mikið.Vísir/GVA
„Það þýddi það að við upplifðum kannski tvö til þrjú hundruð manns á klukkutíma og við vorum kannski ekki nægilega vel búin undir það,“ sagði Hlynur. „Þetta var gífurlegt álagt á starfsfólk og alla innviði flugstöðvarinnar.“

Stjórn Isavia hefur samþykkt framkvæmdir við flugvöllinn fyrir þrjátíu milljarða króna á næstu tveimur árum, eða til ársins 2018. Eftir framkvæmdirnar í ár verður Keflavíkurflugvöllur fimmti stærsti flugvöllur Norðurlanda hvað farþegafjölda varðar.

Stærsta ferðamannasumarið frá upphafi er nú við það að ganga í garð og er búist við því að um 2,5 milljónir ferðamanna fari í gegnum flugvöllinn í sumar. 

Hlynur fór á fundinum yfir nokkur dæmi um fjárfestingar á vellinum hvað varðar þjálfun, búnað og stækkun en til að mynda verður sjálf flugstöðin um tíu þúsund fermetrum stærri í sumar en sumarið í fyrra.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×