Tveimur af hverjum þremur finnst forsetaembættið skipta miklu máli í íslensku stjórnkerfi, þar af finnst tæplega 30% að það sé nauðsynlegt. Næstum þriðjungi finnst það skipta litlu máli og þarf af vilja tæplega 12% leggja það niður. Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem framkvæmd var 10. - 13. maí.
Allnokkur munur er á afstöðu kynjanna þar sem 35-36% karla telja forsetaembættið nauðsynlegt í íslensku stjórnkerfi en um 26% kvenna. Nánast sama hlutfall beggja kynja vill þó leggja embættið niður.
Hæst hlutfall þeirra sem eru yngri en 25 ára finnst embættið nauðsynlegt, eða um 47%. Reykvíkingum og Austfirðingum finnst embættið ekki eins nauðsynlegt og íbúum annars staðar á landinu.
Kjósendum Framsóknarflokksins finnst embættið nauðsynlegra en kjósendum hinna flokkanna, en á eftir fylgja kjósendur Bjartrar framtíðar og Sjálfstæðisflokksins. Einungis um 16% kjósenda Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs finnst forsetaembættið nauðsynlegt í íslensku stjórnkerfi.
Þeim sem hyggjast kjósa Davíð Oddsson sem næsta forseta finnst embættið mun mikilvægara en þeim sem ætla að kjósa annan frambjóðanda. Þannig eru einungis rúmlega 21% þeirra sem ætla að kjósa Davíð sem finnst embættið skipta litlu máli eða að það ætti að leggja það niður en 42-43% þeirra sem ætla að kjósa Andra Snæ Magnason. Þá kemur í ljós að eftir því sem menn eru óánægðari með ákvörðun Ólafs Ragnars að draga sig í hlé því mikilvægara finnst þeim forsetaembættið.
Almenn ánægja með störf Ólafs Ragnars Grímssonar
Á bilinu 63-64% eru ánægð með störf Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetatíð hans árin 1996-2016, þar af er þriðjungur mjög ánægður. Tæplega 15% eru óánægð með störf hans.
Reykvíkingar og Austfirðingar eru óánægðari með störf Ólafs Ragnars en aðrir Íslendingar og ánægja með störf forsetans minnkar með aukinni menntun.
Kjósendur stjórnarflokkanna eru mun ánægðari með störf Ólafs Ragnars Grímssonar en kjósendur stjórnarandstöðuflokkanna. Þá eru það þeir sem ætla að kjósa Davíð Oddsson sem eru ánægðastir með störf forsetans en ánægjan með störf hans er minnst meðal þeirra sem ætla að kjósa Andra Snæ.
Það ætti ekki að koma á óvart að þeir sem eru óánægðastir með að Ólafur Ragnar hefur ákveðið að bjóða sig ekki fram eru ánægðastir með störf hans í hans forsetatíð. Þá minnkar einnig ánægja með störf forsetans eftir því sem svarendum finnst embættið skipta minna máli.
Svarendur voru 824 talsins, koma úr Þjóðgátt Maskínu, sem er panelhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18-75 ára. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu samkvæmt Þjóðskrá og endurspegla því þjóðina prýðilega. Könnunin fór fram dagana 10. - 13. maí 2016.
Innlent