Erlent

Vopnaðir menn tóku yfir kastala í Jórdaníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Kastalinn í Karak er vinsæll ferðamannastaður.
Kastalinn í Karak er vinsæll ferðamannastaður. Vísir/AFP
Hópur vopnaðra manna ruddi sér leið inn í kastala í Karak í Jórdaníu í dag. Mennir skutu minnst fjóra lögregluþjóna til bana á götum borgarinnar áður en þeir flúðu inn í kastalann. Kona frá Kanada er einnig látin sem og tveir Jórdanir. Umsátursástand ríkir nú við kastalann þar sem mennirnir eru taldir vera með ferðamenn í gíslingu.

Kastalinn er frá tímum krossferðanna og er á hæð í borginni Karak. Hann er vinsæll ferðamannastaður. Á vef Reuters segir að lögreglan og sérsveitir hafi skipst á skotum við gíslatökumennina. Minnst níu eru særðir.

Um tíu gíslar eru sagðir hafa verið frelsaðir úr kastalanum en ekki liggur fyrir hvort að búið sé að frelsa alla.

Ekki liggur fyrir hverjir árásarmennirnir eru. Jórdanía er hins vegar eitt af fáum Arabaríkjum sem hefur tekið virkan þátt á aðgerðum gegn Íslamska ríkinu. Þá hafa Bandaríkin þjálfað sýrlenska uppreisnarmenn í Jórdaníu og sent þá aftur til Sýrlands til að berjast gegn ISIS.

Reuters segir embættismenn í landinu hafa óttast upprisu öfgasamtaka í Jórdaníu að undanförnu og þá sérstaklega í fátækari hlutum landsins.

Íslamska ríkið hefur heitið því að „brjóta upp“ landamæri Jórdaínu og samtökin lýstu yfir ábyrgð á bílasprengju á landamærum Jórdaínu og Sýrlands í sumar. Sex létu lífið í árásinni.

Hér má sjá myndband tekið frá Karak þegar skothríðin hófst í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×