Erlent

Mannleg mistök sögð hafa valdið brotlendingu þotunnar sem flutti brasilíska knattspyrnuliðið

Birgir Olgeirsson skrifar
Meðlimir kólumbíska flughersins flytja hér lík eins þeirra sem fórust í flugslysinu.
Meðlimir kólumbíska flughersins flytja hér lík eins þeirra sem fórust í flugslysinu. Vísir/EPA
Yfirvöld í Bólivíu hafa gefið út að mannleg mistök ollu flugslysinu 28. nóvember síðastliðinn þar sem 71 fórst, þar á meðal meðlimir brasilíska knattspyrnuliðsins Chapecoense.

Um var að ræða farþegaþotu frá bólivíska flugfélaginu LaMia sem var á leið frá Santa Cruz í Bolivíu til Medellin í Kólumbíu. Þotan brotlenti í fjallshlíð nærri Medellin.

Ráðherra opinberra framkvæmda í Bólivíu, Milton Claros, sagði á blaðamannafundi að rannsókn yfirvalda hefði leitt í ljós að flugmaður farþegaþotunnar bæri ábyrgð á slysinu.

Hann boðaði jafnframt að bólivíska ríkið muni stefna flugfélaginu og opinberum starfsmönnum vegna málsins.

Greint er frá því á vef CNN að forsvarsmenn LaMia hafi ekki viljað tjá sig um málið að svo stöddu.

Niðurstaða rannsóknarinnar liggur fyrir tæpum mánuði eftir slysið en flestar flugslysarannsóknir taka að jafnaði ár eða lengur.

Meðlimir Chapecoense voru á leið til Kólumbíu til að taka þátt í Copa Sudamerica-keppninni. Sex af farþegum þotunnar lifðu af, þar á meðal varnarmaður liðsins, Alan Luciano Ruschel.

Skömmu áður en vélin hrapaði barst tilkynning frá einum úr áhöfn vélarinnar til flugumferðarstjórnar að rafmagnsbilun hefði orðið í þotunni og að hún væri eldsneytislaus.


Tengdar fréttir

Forstjóri flugfélagsins handtekinn

Yfirvöld í Bólivíu hafa handtekið forstjóra flugfélagsins sem átti vélina er hrapaði í Kólumbíu með brasilíska fótboltaliðið Chapecoense innanborðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×