Erlent

Brottflutningi frá Aleppo ætti að ljúka á morgun

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Vísir/AFP
Tyrknesk yfirvöld halda því fram að brottflutningi saklausra borgara frá austurhluta Aleppo gæti lokið á morgun, miðvikudag. CNN greinir frá.

Utanríkisráðherra Tyrkja, Mevlut Cavusoglu tjáði frá því í tísti í dag að 37.500 manns hefðu verið fluttir á brott frá þessum hluta borgarinnar og að markmiðið væri að ljúka þeim á morgun. 

Tölum tyrkneskra yfirvalda ber hins vegar ekki saman við tölur Rauða krossins sem segir að 25.000 manns hafi verið fluttir á brott og í öruggt skjól.

100 rútur eru sagðar eiga að yfirgefa borgina í dag ásamt 400 bílum í einkaeign.

Ekki er víst hve margir saklausir borgarar eru enn innlyksa í austurhluta borgarinnar en að sögn ríkisrekinna sýrlenskra fjölmiðla notar sýrlenski stjórnarherinn hátalara til þess að senda uppreisnarmönnum boð um að yfirgefa svæðið og auðvelda brottflutning saklausra borgara.

Tyrkir og Rússar höfðu áður miðlað málum á milli uppreisnarmanna og stjórnarhersins. 


Tengdar fréttir

Rútur brenndar af vígamönnum

Talið er að hryðjuverkasamtök hafi brennt rútur sem flytja áttu saklausa borgara í Sýrlandi. Stjórnarher Assads­ og uppreisnarmenn sömdu um vopnahlé svo að hægt væri að koma borgurum til bjargar.

Sameinuðu þjóðirnar senda eftirlitsmenn til Aleppo

Ályktunin kveður á um að allir aðilar á svæðinu veiti eftirlitsmönnunum óhindraðan aðgang til að fylgjast með ástandinu í austurhluta Aleppo og fólksflutningum úr borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×