Guðmundur Guðmundsson gerði Dani að Ólympíumeisturum í ágúst en tveir aðrir þjálfarar voru að skila flottum árangri á báðum stórmótum ársins.
Þórir Hergeirsson og Dagur Sigurðsson áttu báðir magnað og um margt keimlíkt ár þar sem þeir stýrðu landsliðum sínum í verðlaunasæti á tveimur stórmótum.
Þórir og Dagur eiga það líka sameiginlegt að þeir stýrðu landsliði sem þeir bjuggu til, Dagur með því að hreinsa vel til innan þýska landsliðshópsins og hrista vel upp í hlutunum en Þórir með áralangri uppbyggingu norska kvennalandsliðsins.

Þrátt fyrir öll forföllin og tap fyrir Spáni í fyrsta leik þá tókst Degi á aðdáunarverðan hátt að snúa vörn í sókn og búa til meistaralið sem vann síðustu sjö leiki sína á mótinu. Liðið endaði á sannfærandi sjö marka sigri á Spáni og sýndi þá hvað það hafði vaxið og dafnað frá því í tapinu í fyrsta leik.
Dagur mætti með talsvert meiri væntingar og jafnframt með flesta lykilmenn heila á Ólympíuleikana. Það stefndi í mögulegan Íslendingaslag í úrslitaleiknum en Þjóðverjum tókst ekki að komast í gegnum tvöfalda Ólympíumeistara Frakka í undanúrslitunum. Þýska liðið vann bronsið sannfærandi eftir sigur á Pólverjum og Guðmundur Guðmundsson sá svo um að stoppa sigurgöngu Frakkanna í úrslitaleiknum.
Undir stjórn Þóris Hergeirssonar unnu norsku stelpurnar alla átta leiki sína á Evrópumótinu í Svíþjóð, þar á meðal sigur á báðum liðunum sem spiluðu til úrslita á Ólympíuleikunum í Ríó.

Liðið kláraði síðan alla átta leiki sína á EM og þrátt fyrir fimm gullverðlaun undir stjórn Þóris á síðustu sex árum þá var þetta í fyrsta sinn sem liðið vinnur alla leiki sína á stórmóti eftir að hann tók við sem aðalþjálfari.
Samanlagt stýrðu þeir Dagur og Þórir landsliðum sínum til sigurs í 27 af 32 leikjum á stórmótunum tveimur á árinu 2016. Íslensku þjálfararnir tveir fögnuðu sigri í 84 prósent leikjanna á EM og ÓL sem er mögnuð tölfræði.*
Heilt yfir eru íslenskir þjálfarar nú handhafar fjögurra af sex stórmótatitlum í boði en það er aðeins heimsmeistaragull karla (Frakkland 2015) og Ólympíugull kvenna (Rússland 2016) sem standa út af borðinu. Guðmundur Guðmundsson (Danmörk) og Dagur Sigurðsson (Þýskaland) stýra báðir sínum landsliðum í síðasta sinn á HM í Frakklandi í byrjun næsta árs og gætu því bætt úr því.

2016
Karlar: Þýskaland (Dagur Sigurðsson, Ísland)
Konur: Noregur (Þórir Hergeirsson, Ísland)
2014
Karlar: Frakkland (Claude Onesta, Frakkland)
Konur: Noregur (Þórir Hergeirsson, Ísland)
2012
Karlar: Danmörk (Ulrik Wilbek, Danmörk)
Konur: Svartfjallaland (Dragan Adzic, Svartfjallaland)
2010
Karlar: Frakkland (Claude Onesta, Frakkland)
Konur: Noregur (Þórir Hergeirsson, Ísland)
2008
Karlar: Danmörk (Ulrik Wilbek, Danmörk)
Konur: Noregur (Marit Breivik, Noregur)
2006
Karlar: Frakkland (Claude Onesta, Frakkland)
Konur: : Noregur (Marit Breivik, Noregur)
2004
Karlar: Þýskaland (Heiner Brand, Þýskaland)
Konur: Noregur (Marit Breivik, Noregur)
2002
Karlar: Svíþjóð (Bengt Johansson, Svíþjóð)
Konur: Danmörk (Jan Pytlick, Danmörk
2000
Karlar: Svíþjóð (Bengt Johansson, Svíþjóð)
Konur: Ungverjaland (Lajos Mocsai, Ungverjaland)
1998
Karlar: Svíþjóð (Bengt Johansson, Svíþjóð)
Konur: Noregur (Marit Breivik, Noregur)
1996
Karlar: Rússland (Vladimir Maksimov, Rússland)
Konur: Danmörk (Ulrik Wilbek, Danmörk)
1994
Karlar: Svíþjóð (Bengt Johansson, Svíþjóð)
Konur: Danmörk (Ulrik Wilbek, Danmörk)