Líklegt þykir að tillagan muni mæta mikilli mótspyrnu á þingi Bandaríkjanna.
Samkvæmt Washington Post, stendur til að rétta yfir einhverjum af föngunum sem flytja á til Bandaríkjanna, en aðrir verða áfram fangelsaðir án dóms og laga.
Lokun Guantanamo var kosningaloforð Barack Obama. Þingmenn hafa þó margsinnis samþykkt lög sem banna flutning fanga þaðan og samkvæmt AP fréttaveitunni kalla þeir eftir frekari upplýsingum um tillöguna og hvernig eigi að fylgja málinu eftir.
Til stendur að notast við þrettán fangelsi í Bandaríkjunum og af þeim þyrfti að byggja sex ný. Sparnaður af lokun Guantanamo gæti verið um 180 milljónir dala á ári, en byggingarkostnaður væri verulegur.
91 fangi er í Guantanamo sem stendur og stendur til að flytja 35 þeirra á brott í sumar. Meðal fanga þar eru fimm menn sem grunaðir eru um að hafa skipulagt og komið að árásunum á tvíburaturnana í september 2001.
Þegar mest var, árið 2003, voru nærri því 680 fangar í fangelsinu.