Innlent

Álversdeilan: Aldrei kynnst annarri eins hörku

Heimir Már Pétursson skrifar
Talsmaður starfsmanna í álverinu í Straumsvík segist aldrei hafa kynnst annarri eins hörku og fyrirtækið sýni starfsmönnum í deilu þeirra við álverið. Félagsdómur tekur fyrir kæru álversins á boðuðu útflutningsbanni starfsmanna sem á að hefjast á miðnætti.

Félagsdómur kemur saman klukkan hálf fimm í dag til að meta lögmæti útflutnngsbannsins. Skipað er vikulega út frá Straumsvík um fjögur þúsund tonnum af áli í hvert sinn. Gylfi Ingvarsson talsmaður starfsmanna reiknar með að dómur liggi fyrir fljótlega í kvöld eða áður en aðgerðir eiga að hefjast á miðnætti.

Verkalýðsfélögin telja að boðað hafi verið til aðgerðanna með löglegum hætti og lögmenn telji fordæmi vera fyrir aðgerðum sem þessum. Gylfi segir hörkuna í deilunni mikla.

„Við höfum aldrei kynnst neinu þessu líkt áður. Menn hafa alltaf haft stöðu til að setjast niður og ræða málin og finna lausnir. En í þessari stöðu hefur það ekki verið. Ef við höfum náð að komast að þeim til að ræða efnislega um þetta helsta ágreiningsmál hafa þeir alltaf dregið upp sínar ítrustu kröfur. Þannig að þetta lyktar svolítið af því að þeir vilji ekki semja,“ segir Gylfa.

Ef dómur falli verkalýðshreyfingunni ekki í vil verði mögulegir vankantar einfaldlega sniðnir af og boðað til aðgerða á nýjan leik.

„Mér skilst að þeir séu búnir að hafa upp á aðalforstjóranum. Hann var víst týndur í skíðaferðalagi eftir sem okkur var sagt. Eins trúlegt og það er, að það sé ekki hægt að ná í menn. En upphaflega báðu þeir um frestun á verkfalli þannig að þeir mátu það í upphafi að það væri löglegt. Svo þegar því var hafnað var farin þessi leið. Þannig að þetta er einkennilegur skollaleikur,“ segir Gylfi Ingvarsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×