Viðskipti innlent

Forstjórinn segir Landsvirkjun bjóða gott verð á raforku

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Norðurál á Grundartanga. Hörður segir að ef ekki náist að semja muni aðrir aðilar líklegast kaupa orkuna til lengri tíma.
Norðurál á Grundartanga. Hörður segir að ef ekki náist að semja muni aðrir aðilar líklegast kaupa orkuna til lengri tíma. vísir/ernir
Eftirspurn eftir raforku eykst mikið og Landsvirkjun getur ekki annað heildareftirspurn iðnaðar eins og sakir standa. Þetta kom fram í máli Harðar Arnarssonar, forstjóra Landsvirkjunar, á uppgjörsfundi sem fram fór í gærmorgun. Hann sagði að eftirspurnin væri meiri en hefði sést áður á Íslandi.

Hörður sagði að þessi mikla eftirspurn væri mjög sérstök í því efnahagsumhverfi sem ríkir í heiminum í dag. Almennt væri lítið um fjárfestingar og orkuverð í heiminum væri lágt.

„Þetta staðfestir alveg samkeppnishæfni okkar. Sumir vilja halda það að við séum að verðleggja okkur of hátt. En þegar staðan er þannig að eftirspurnin er meiri en framboðið þá myndu flest markaðslögmál segja að við værum frekar að verðleggja okkur of lágt,“ sagði hann.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar.
Hörður benti á að tveir nýir kaupendur væru að koma inn í viðskiptavinahópinn, annars vegar United Silicon í Helguvík og hins vegar PCC á Bakka. Þá sé uppbygging í gagnaverum mikil viðbót en sala á markaðnum til gagnavera er nú í heild 30 megavött á ári. „Síðan er vöxtur í almenna markaðnum og að mati Orkustofnunar er sá vöxtur um sex til tólf megavött á ári,“ sagði Hörður. Það væri því fjölbreytt eftir­spurn frá litlum og meðal­stórum fyrirtækjum

Hörður sagði að verið væri að mæta aukinni eftirspurn með þremur nýjum virkjanaframkvæmdum; Búðarhálsvirkjun, Þeistareykjavirkjun og stækkun Búrfellsvirkjunar. „Við myndum gjarnan vilja að fleiri væru að byggja virkjanir á Íslandi. En frá árinu 2008 erum við eina fyrirtækið sem hefur byggt eitthvað upp. Það væri mjög gott fyrir markaðinn ef fleiri væru að styðja við eftirspurnina.“

Hörður segir unnið að því að endursemja við viðskiptavini. Þar séu samningar við Elkem á Íslandi og Norðurál sem þurfi að endurnýja fyrir árið 2019. Hörður segir að ef ekki náist að semja við Norðurál og Elkem verði líklegast umframframboð á raforku í einhvern tíma. „En þetta eru ekki mjög stórir samningar,“ segir Hörður. Hann bætir því við að það séu að koma aðilar inn á markaðinn sem kynnu að hafa áhuga á að kaupa þá orku sem yrði þá afgangs. „En ég endurtek samt, að áformin eru skýr, að endursemja.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×