Erlent

Trump ver myndbirtingu af vef nýnasista

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Getty/Twitter
Forsetaframbjóðandinn Donald Trump þvertekur fyrir að mynd sem birt var á Twittersíðu hans sé gyðingahatur. Hann segir „óheiðarlega fjölmiðla“ kasta rýrð á sig. Myndin sem um ræðir er af Hillary Clinton á bakgrunni úr peningum. Á myndinni var stjarna Davíðs sem í stóð að Hillary væri spilltasti frambjóðandi allra tíma.

Stjarna Davíðs er tákn gyðinga og var notað af Nasistum til að bera kennsl á þá.

Uppruni myndarinnar hefur verið rakin til Twittersíðu einstaklings sem reglulega birtir rasískar myndir. Umrædd mynd var fyrst birt þann 15. júní. Þann 22. var hún birt á spjallþræði nýnasista á 8chan. Á myndinni sem birt var á Twittersíðu Trump hafði bakgrunninunum þó verið bætt við.

Hún var svo fljótt tekin út og sett aftur inn þar sem búið var að breyta stjörnunni í hring. Seinna meir var myndin tekin út aftur.

Einn af samstarfsmönnum Trump sagði í samtali við CNN að myndin væri alls ekki gyðingahatur. Þetta er alls ekki í fyrsta sinn sem efni, sem á uppruna sinn að rekja til nýnasta eða rasista er birt á Twittersíðu Trump.

Nú hefur verið birt tíst á síðu Trump þar sem hann segir fjölmiðla gera sitt besta til að breyta stjörnunni á myndinni í stjörnu Davíðs, frekar en stjörnu fógeta eða einfaldlega stjörnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×