Erlent

Sprengdi sig í loft upp nærri ræðisskrifstofu Bandaríkjanna

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Maður sprengdi sig í loft upp nærri ræðisskrifstofu Bandaríkjanna í Jeddah í Sádi-Arabíu í nótt. Tveir öryggisverðir, sem stöðvuðu manninn, særðust í árásinni en annars lést enginn fyrir utan árásarmanninn sjálfan.

Maðurinn hafði vakið grun öryggisvarðanna þar sem hann er sagður hafa hagað sér grunsamlega á gatnamótum skammt frá ræðisskrifstofunni. Verðirnir nálguðust árásarmanninn í bílastæðahúsi við sjúkrahús þar sem hann sprengdi sig.

Ekki er vitað fyrir víst að hann hafi ætlað að gera árás á ræðisskrifstofuna, en árið 2004 réðst þrír vopnaðir menn á vegum al-Qaida á skrifstofuna. Þeir voru felldir eftir þriggja tíma bardaga og féllu fimm öryggisverðir skrifstofunnar í átökunum. Bandaríkjamenn halda í dag upp á þjóðhátíðardag sinn.

Yfirvöld Bandaríkjanna hafa varað borgara sína við því að ferðast til Sádi-Arabíu og segja þeim sem séu þar að vera meðvitaðir um umhverfi sitt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×