Innlent

Bara geðveik: „Hún bjargaði lífi mínu“

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
„Þið heyrið að þarna er manneskja að deyja úr sársauka. Ég vil aldrei, aldrei, aldrei aftur vera á þessum stað,” segir Silja Björk Björnsdóttir í geðshræringu eftir að hafa hlustað á Neyðarlínusímtal með fjölskyldu sinni í þættinum „Bara geðveik” sem verður á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld. Viðbrögð hennar við símtalinu má sjá í myndbrotinu sem hér fylgir. Í símtalinu ræðir vinkona hennar Tinna Haraldsdóttir við Neyðarlínuna eftir að henni verður ljóst að Silja hefur gert tilraun til að taka sitt eigið líf á heimili sínu á Akureyri.

Silja er vel gefin, félagslynd, eldhress og með athyglissýki, segja hennar nánustu. En liðlega tvítug missti hún lífsviljann. Í 5. þætti af „Bara geðveik” er kafað ofan í hvaða aðstæður og tilfinningar verða til þess að ung og spræk kona í blóma lífsins tekur þá ákvörðun að vilja binda endi á líf sitt.

Silja Björk er ein fjórum hugrökkum Íslendingum sem ákváðu að hleypa Lóu Pind og Agli Aðalsteinssyni myndatökumanni inn í líf sitt. Þau hafa fylgst með Silju, Ágústu Ísleifsdóttur, Brynjari Orra Oddgeirssyni og Bjarneyju Vigdísi Ingimundardóttur mánuðum saman, sumum í tæplega ár til að fá djúpa innsýn í tilveru fólks með geðsjúkdóma.

Fimmti þáttur af sex í heimildaþáttaseríunni „Bara geðveik” fer í loftið á Stöð 2 í kvöld kl. 20:00. Lóa Pind Aldísardóttir hefur umsjón með þáttunum, Egill Aðalsteinsson er myndatökumaður og Ómar Daði Kristjánsson sér um klippingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×