Lífið

Fylgdist með fæðingunni í gegnum Skype

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Jóhannes Haukur ásamt Jens Hultén, meðleikara sínum í myndinni The Solutrean, en hann er þekkastur fyrir hlutverk sín í Skyfall og Mission Impossible.
Jóhannes Haukur ásamt Jens Hultén, meðleikara sínum í myndinni The Solutrean, en hann er þekkastur fyrir hlutverk sín í Skyfall og Mission Impossible.
Tilfinningin var blendin, manni þótti auðvitað miður að geta ekki verið á staðnum en að sama skapi alveg dásamlegt að geta fylgst með og talað við Rósu í beinni útsendingu. Þetta kom okkur sem betur fer ekki á óvart þar sem við vorum fyrir löngu búin að átta okkur á því að það væru yfirgnæfandi líkur á því að ég myndi ekki ná því að vera viðstaddur þar sem settur dagur var 29. apríl og ég kem ekki heim fyrr en í fyrsta lagi 5. maí. Svo er þetta þriðja barnið og hin tvö hafa bæði komið fyrir tímann,“ segir Jóhannes Haukur Jóhannesson, spurður hvernig tilfinning það hafi verið að horfa á fæðingu dóttur sinnar í gegnum Skype en hann er nú staddur í Kanada við tökur á myndinni The Solutrean í leikstjórn Albert Hughes.

Jóhannes Haukur og eiginkona hans Rósa Björk Sveinsdóttir eignuðust stúlku 17. apríl. Eins og fyrr segir var Jóhannes nokkuð viss um að ná ekki fæðingunni, en gerði ráðstafanir og fylgdist vel með frá upphafi.





Nýfædd dóttir þeirra Jóhannesar Hauks og Rósu Bjarkar.
„Ég var stressaður yfir því að vera við tökur á einhverjum stað með lélegri nettengingu og missa þannig alfarið af þessu. En dóttir okkar sýndi okkur þá kurteisi að koma í heiminn á frídegi þannig að ég gat fylgst með í beinni frá upphafi og þar til hún sofnaði í örmum móður sinnar sex tímum síðar. Ég sat bara á hótelherberginu mínu með premium nettengingu. Svo er maður alltaf með áhyggjur af því hvort allt gangi vel og að allir sleppi heilir frá þessu. Fæðingin gekk ótrúlega vel. Það var búið að ákveða heimafæðingu og allt til alls á staðnum, ég var búinn að taka allt til fyrir komu barnsins áður en ég fór til Kanada í febrúar. Vaggan, föt, bleiur, skiptiborð, bílstóll og allt sem til þarf var klárt þegar ég fór út. Um sunnudagsmorgun byrjaði legvatnið að leka en samdrættirnir byrjuðu svo ekki fyrr en um átta um kvöldið. Þá komu ljósmæðurnar og frænka mín, sem var minn staðgengill í fæðingunni, á staðinn. Svo bara græjaði frúin þetta á þremur tímum eins og herforingi. Jógabolti og sundlaug og eiginmaðurinn á tölvuskjá. Litla stelpan tók svo strax brjóst og sofnaði í örmum móður sinnar laust eftir miðnætti,“ segir Jóhannes Haukur stoltur og fullur tilhlökkunar að koma heim og hitta nýfædda dóttur sína og fjölskyldu.

Jóhannes Haukur er á síðustu metrunum við að leika í kvikmyndinni The Solutrean í leikstjórn Alberts ­Hughes. Myndin gerist fyrir 20.000 árum og fjallar í einföldu máli um að lifa af.

„Ég held ég megi nú ekkert gefa nánar upp um söguþráðinn. Þetta er stórkostlegt verkefni sem ég er afar þakklátur fyrir að fá að taka þátt í. Myndin kemur í bíó um allan heim í IMAX, 2D og 3D seint á næsta ári. Og mér skilst að hún verði sýnd í kvikmyndahúsum Senu hér heima. Maður skellir sér þá í bíó með allt stóðið og smellir heyrnartólum á þessa minnstu,“ segir Jóhannes Haukur léttur í bragði. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×