Innlent

Erlent vinnuafl streymir aftur til Íslands

Sæunn Gísladóttir skrifar
Fyrir hrun var eftirspurn eftir erlendu vinnuafli mest í byggingariðnaði en nú er hún mest í ferðaþjónustu. Fréttablaðið/Pjetur
Fyrir hrun var eftirspurn eftir erlendu vinnuafli mest í byggingariðnaði en nú er hún mest í ferðaþjónustu. Fréttablaðið/Pjetur
Vegna vaxtar í ferðaþjónustu styttist í að hlutfall erlendra ríkisborgara af vinnuafli verði hærra en fyrir hrun.

Þetta er mat Karls Sigurðssonar, sérfræðings hjá Vinnumálastofnun.

Með hruninu dró úr þörf fyrir erlent vinnuafl. Hlutfall erlendra ríkisborgara af vinnuafli lækkaði úr tíu niður í átta prósent. Nú er hlutfallið milli níu og tíu prósent.

Karl Sigurðsson
„Störfum fór að fjölga árið 2012 og síðan hefur orðið mikil aukning. Til urðu sex þúsund ný störf 2015 og stefnir í jafn mörg störf 2016,“ segir Karl. Munur á náttúrulegri fjölgun á vinnumarkaði og fjölda nýrra starfa nemur tveimur til þremur þúsundum.

„Fólk á atvinnuleysisskrá dekkar hluta af þessu og gerir enn þó að ekki sé mikið þar að hafa í framtíðinni. Síðan hefur atvinnuþátttaka aðeins verið að aukast. Þó má áætla að sá tími sé að koma að við þurfum tvö til þrjú þúsund erlenda starfsmenn á ári,“ segir Karl.

Eftirspurnin fyrir hrun var örari og snerist um byggingariðnaðinn og fór í aðrar greinar út frá því. Fyrst og fremst komu karlmenn að sögn Karls.

„Þetta er miklu hægara núna, er tengt ferðaþjónustu að mestu leyti og nú koma bæði konur og karlar. Það hefur þó verið vaxandi eftirspurn eftir erlendu vinnuafli í byggingariðnaði í lok síðasta árs og í ár,“ segir Karl.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 20. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×