
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, er launahæstur þeirra sem heyra undir kjararáð og eru ekki þjóðkjörnir. Mánaðarlaun Harðar eru rúmar 2 milljónir króna.
Með nánast sömu laun er Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar.
Þá kemur Már Guðmundsson, með ríflega 1,9 milljónir króna.
Listi yfir fimmtán launahæstu embættismennina er á síðu 4 í Fréttablaðinu í dag og hlekkur á fréttina á Vísi.is hér að neðan.

Kjararáð vísar til þess að í ákvörðun gerðardóms í ágúst í fyrra um kjör aðildarfélaga BHM hafi verið ákvæði um 5,5 prósenta hækkun launa og 1,65 prósenta viðbótarhækkun um síðustu mánaðamót. Ráðinu beri að bregðast við verði verulegar breytingar „á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar“.
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM, segir þetta endurspegla að vond ákvörðun hafi verið að setja lög á kjaradeilu átján aðildarfélaga BHM og færa í gerðardóm. Kröfur um að menntun yrði metin til launa hafi verið málefnalegar og ríkið átt að geta samið við félagið.
Aðrir á vinnumarkaði hafi gert niðurstöðu gerðardóms að sinni.
„Þess vegna hefur niðurstaða baráttunnar sem BHM stóð fyrir á síðasta ári smurst yfir samfélagið. Það var aldrei tilgangur okkar,“ segir Þórunn sem kveðst ekki gera athugasemd við ákvörðun kjararáðs sem væntanlega starfi lögum samkvæmt.
Fyrirkomulagið sé hins vegar gamaldags og mögulega sé kominn tími til að endurskoða það með einhverjum hætti, svo sem með tilliti til þess hversu margar stéttir heyri undir rðið.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 1. júlí 2016