Enski boltinn

Neville: Smalling myndi hlaupa í gegnum vegg en Shaw þarf að þroskast

Tómas Þór Þórðarson skrifar
José Mourinho gagnrýndi varnarmenn sína.
José Mourinho gagnrýndi varnarmenn sína. vísir/getty
Gary Neville, fyrrverandi fyrirliði Manchester United, segir það koma sér á óvart að José Mourinho hafi gagnrýnt Chris Smalling svona harkalega fyrir að spila ekki leikinn á móti Swansea um helgina en segir Luke Shaw aftur á móti þurfa að þroskast betur líkamlega og andlega.

Mourinho lét Smalling og Shaw heyra það eftir að þeir gátu ekki spilað í 3-1 sigurleik Manchester United gegn Swansea á sunnudaginn. Hann efaðist um vilja varnarmannanna til að leggja allt í sölurnar fyrir Manchester United.

Sjá einnig:Southgate kemur Smalling og Shaw til varnar eftir ummæli Mourinho

„Menn verða að gera allt fyrir liðið. Það er munur á hugrökkum leikmönnum, sem gera allt fyrir liðið, og þeirra sem kvarta yfir minnsta sársauka,“ sagði Mourinho en hvorugur þeirra var valinn í enska landsliðið vegna meiðslanna.

Gary Neville vann með Chris Smalling þegar hann var aðstoðarþjálfari enska landsliðsins og segist ekki hafa upplifað Smalling sem svona leikmann áður.

„Mér finnst erfitt að trúa neinu öðru en Chris sé algjörlega einbeittur á það að vera mættur út á æfingavöllinn á hverjum einasta degi. Ég er ekki alveg viss um hvað José er að sjá en hann er knattspyrnustjóri félagsins og gerir það sem honum finnst best,“ segir Neville.

„Eftir að hafa unnið með Smalling í fjögur ár get ég ekki annað sagt en að hann er traustins verður og heilsteyptur strákur. Fyrir mér er hann leikmaður sem myndi hlaupa í gegnum vegg fyrir þig. Þess vegna kemur þetta mér á óvart.“

„Luke Shaw er flóknari karakter, aftur á móti. Hann er ungur og þarf að þroskast bæði líkamlega og andlega,“ segir Gary Neville.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×