Viðskipti innlent

Síldarvinnslan ræðst í stórátak í öryggismálum fyrirtækisins

Svavar Hávarðsson skrifar
Tekið verður á öryggismálum í vinnsluhúsum jafnt sem skipum.
Tekið verður á öryggismálum í vinnsluhúsum jafnt sem skipum. Mynd/KristínHávarðsdóttir
Innleiðing á nýju öryggiskerfi stendur yfir hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Markmiðið er að byggja upp öryggismenningu hjá fyrirtækinu þar sem hættur eru stöðugt greindar og lausnir innleiddar og endurbættar eftir því sem tækni, veiðum og vinnslu fleygir fram.

Guðjón B. Magnússon, nýr öryggisstjóri fyrirtækisins, leiðir vinnuna. „Þetta er langtímaverkefni sem stendur og fellur með þátttöku starfsmanna og stjórnenda á hverjum vinnustað“, segir Guðjón í frétt á heimasíðu fyrirtækisins. „Í þessu sambandi skiptir breytt hugarfar og ekki síður breytt hegðun miklu máli – markmiðið er að byggja upp öryggisvenjur sem skila árangri. Það er ljóst að það tekur tíma og orku að byggja upp öryggismenningu, en bæði rannsóknir og reynsla sýna hvað það skilar miklum árangri.“

Minnt er á slysa- og dánartíðni sjómanna í dag og hvers konar árangur næst þegar gengið er skipulega fram í að auka öryggi og öryggisvitund. Ákvörðun var tekin um að gera ráðstafanir til að bæta öryggi sjómanna og nú eru alvarleg slys á sjó mjög fátíð miðað við það sem áður var. Slysatíðni í fiskiðnaði er hins vegar enn allt of há en flest stóru sjávarútvegs- og fiskvinnslufyrirtækin hafa ráðið öryggisstjóra til starfa og eru að stórauka áherslu á öryggismál.

Búið er að gera drög að nýjum áhættugreiningum í fiskiðjuverinu í Neskaupstað. Þar er lögð áhersla á nýliðafræðslu og talsverðar breytingar verða gerðar á búnaði og vinnuaðstöðu til að auka öryggi.

Reynslan úr fiskiðjuverinu verður síðan nýtt við innleiðingu kerfisins í öðrum starfsstöðvum og skipum fyrirtækisins, segir í fréttinni.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. júní






Fleiri fréttir

Sjá meira


×