Núverandi aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum hafa meiri áhrif til hækkunar á almennu fasteignaverði en til lækkunar. Ef stjórnvöld vilja lækka húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu þurfa þau að afmarka betur þá hópa sem fá stuðning við húsnæðiskaup og styrkja forsendur fyrir auknum nýbyggingum. Þetta tvennt mun lækka húsnæðisverð að mati Björns Brynjúlfs Björnssonar, hagfræðings Viðskiptaráðs Íslands. Björn heldur erindi um málið á fundi VÍB í VÍB stofunni í morgun.
Björn bendir á að þrátt fyrir miklar umræðar um hátt húsnæðisverð og erfiðleika ungs fólks við að kaupa fasteign bendi fátt til þess að erfitt sé að eignast húsnæði á höfuðborgarsvæðinu, ef frá er talinn miðbærinn. Fasteignaverð sem hlutfall af launum hafi haldist óbreytt í 22 ár. Hann segir Viðskiptaráð ekki telja ástæðu til inngripa stjórnvalda á húsnæðismarkaði.
„Heildarstuðningur stjórnvalda er orðinn mjög mikill í húsnæðismálum en hann nam rúmlega fjörutíu milljörðum í fjárlögum síðasta árs. Þau stuðningskerfi sem stjórnvöld starfrækja í dag hafa meiri áhrif til hækkunar á almennu fasteignaverði en til lækkunar. Það eykur eftirspurn eftir húsnæði að afhenda stórum hluta þjóðarinnar fjármuni sem eru sérstaklega eyrnamerktir húsnæðiskaupum. Framboðsmegin er skortur af lóðum, skipulagsreglur eru strangari en áður og byggingarkostnaður var hækkaður verulega með nýrri byggingarreglugerð árið 2012, sérstaklega fyrir smærri íbúðir. Aðgerðir stjórnvalda hafa því umtalsverð áhrif til hækkunar húsnæðisverðs, þó að þau séu að reyna að styðja við íbúðakaupendur með öllum þessum kerfum,“ segir Björn.
Þörf er því á að afmarka húsnæðisaðgerðirnar sem mun draga úr eftirspurn, og auka lóðaframboð og lækka byggingarkostnað.
Hægt er að horfa á fund VÍB í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Viðskipti innlent