Lífið

„Ég var kominn með hálfgerða hveitipabbabumbu“

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Hallgrímur Ólafsson leikari hefur undanfarnar níu vikur verið í stífu prógrammi hjá einkaþjálfara.
Hallgrímur Ólafsson leikari hefur undanfarnar níu vikur verið í stífu prógrammi hjá einkaþjálfara. Vísir/Vilhelm
„Það er mjög góð stemning í hópnum, frumsýningin átti að vera fyrir tveimur vikum svo það er óhætt að segja að sýningin sé tilbúin, en það þurfti að fresta frumsýningunni vegna slyss sem átti sér stað á æfingu með þeim afleiðingum að aðalleikkona sýningarinnar, Vigdís Hrefna, slasaðist og gat því miður ekki tekið þátt áfram, svo síðustu tvær vikur hafa farið í það að koma leikkonunni Láru Jóhönnu inn í hlutverk Vigdísar, en það hefur gengið alveg frábærlega.

Lára er alveg ótrúleg leikkona - að geta stokkið inn í svona stórt og veigamikið hlutverk með svona stuttum fyrirvara er alveg rosalegt. Ég á eiginlega ekki orð yfir það, hún er nánast inni á sviðinu allan tímann og gerir þetta mjög vel,“ segir Hallgrímur Ólafsson leikari spenntur fyrir kvöldinu



Leikritið Hleyptu þeim rétta inn fjallar um Óskar sem er einmana og vinalaus drengur sem er lagður í gróft einelti í skóla. Þegar hin dularfulla Elí flytur inn í blokkina hans við hliðina á honum umturnast tilvera Óskars þar sem undarlegir og óhugnanlegir atburðir fara að eiga sér stað á svæðinu. Óskar áttar sig smám saman á því hvert leyndarmál Elí er, hún er vampíra, sem verður að nærast á blóði fólks til að komast af.

„Ég leik Mikka, ungan dreng, sem leggur Óskar í einelti ásamt félaga sínum. Mikki er í grunninn alls ekkert vondur strákur en tekur þátt til þess að falla í hópinn og vera samþykktur. En þetta er mjög ljót og illa gert af þeim félögum,“ segir Halli.

Þar sem Hallgrímur leikur barn í sýningunni, sjálfur orðinn þriggja barna faðir og kominn á fertugsaldurinn fannst honum ekkert annað hægt að gera í stöðunni, en að taka sig í gegn og koma sér í gott líkamlegt form.

„Þegar ég fór á samlestur á leikritinu fyrr í vetur, áttaði ég mig á því að ég var að fara leika barn í sýningunni, og þar sem ákveðnar senur í leikritinu eiga sér stað bæði inni í sundlaug og búningsklefa, þar sem ég kem til með að vera ber að ofan var ekkert annað í stöðunni en skella mér í góða líkamsrækt, ég var kominn með hálfgerða hveitipabbabumbu sem mér fannst alls ekki ganga upp í þessu hlutverki. Ég hafði samband við æskufélaga minn, Garðar Sigvaldason einkaþjálfara í Sporthúsinu. Ég hef verið í frekar stífu prógrammi í níu vikur og misst heil sex kíló. Þetta er frábær tilfinning, allt miklu léttara og ég hef mun meiri orku en ég hafði, en ég verð samt að viðurkenna að mér finnst alls ekkert skemmtilegt að stunda líkamsrækt,“ segir Halli léttur í bragði og bætir við að vonandi eigi það eftir að breytast þar sem hann er staðráðinn í því að halda sér áfram í góðu formi.

Fram undan er nóg um að vera hjá Hallgrími en hann mun taka þátt í Djöflaeyjunni sem fer á fjalir Þjóðleikhússins næstkomandi haust, ásamt fleiri skemmtilegum verkefnum

„Það er búið að vera nóg að gera í leikhúsinu, en í vetur hef ég, ásamt því að leika í Hleyptu þeim rétta inn, leikið í Móðurharðindunum, Sporvagninum Girnd og Leitinni að jólunum. Fram undan er svo Djöflaeyjan í haust þar sem ég fer með hlutverk Grettis en það var Guðmundur Ólafsson sem lék hann í kvikmyndinni hér á árum áður. Svo er ég að leikstýra leikritinu Fullkomið brúðkaup sem framhaldsskólinn á Akranesi er að setja upp, ásamt því hef verð ég verkefnastjóri á Írskum dögum sem fram fara á Akranesi í sumar," segir Halli.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×