Innlent

Bernhöftsbakarí skal borið út úr Bergstaðastræti 13

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Mynd frá árinu 2011 þar sem bakarameistarinn í Bernhöftsbakaríi sýnir bréfið þar sem húseigandinn minnir á að leigusamningurinn renni út um áramót.
Mynd frá árinu 2011 þar sem bakarameistarinn í Bernhöftsbakaríi sýnir bréfið þar sem húseigandinn minnir á að leigusamningurinn renni út um áramót.
Bernhöftsbakarí skal borið út úr jarðhæð Bergstaðastrætis 13, ásamt öllu sem því fylgir, með beinni aðfarargerð. Þetta var niðurstaða Hæstaréttar í dag en hann staðfesti með því úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur.

Bakaríið hefur verið til húsa í jarðhæði umræddrar fasteignar frá því að leigusamningur þess efnis var gerður árið 1982. Árið 2001 var gerður samningur á ný um húsnæðið sem síðar var sagt upp af eigendum húsnæðisins. Með dómi Hæstaréttar í árslok 2012 var ekki fallist á að sá leigusamningur hefði framlengst ótímabundið og fallist á að bakaríið yrði að víkja.

Í febrúar 2013 gerðu eigendur bakarísins tilboð í eignina og var kauptilboð undirritað og samþykkt af eigendum Bergstaðastrætis 13 með fyrirvörum. Þeir fyrirvarar voru aldrei uppfylltir.

Í niðurstöðu héraðsdóms var fallist á að uppsögn leigusamnings aðila hafi verið fullnægjandi. Eigendur húsnæðisins eigi skýlausan rétt á að fá umráð yfir húsnæði sínu og að skilyrði þess að bakaríið skuli borið út þóttu uppfyllt.


Tengdar fréttir

Bernhöftsbakarí er að missa Bergstaðastræti

„Mér finnst að fólkið hér í hverfinu eigi það skilið að við gefumst ekki upp svo auðveldlega,“ segir Sigurður Már Guðjónsson, bakarameistari í Bernhöftsbakaríi á Bergstaðastræti 13. Eigandi hússins tilkynnti á þriðjudag að bakaríið yrði að vera á braut í síðasta lagi um áramót.

Bernhöftsbakarí verður opið enn um sinn

"Ég held bara áfram að vera hérna í rólegheitunum,“ segir Sigurður Már Guðjónsson, bakarameistari í Bernhöftsbakaríi, sem ætlar ekki að flytja starfsemina úr Bergstaðastræti 13 þótt leigusamningurinn renni út um áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×