Seddeeq er svekktur, sár og reiður
Vísir ræddi við Karim nú rétt í þessu. Hann sagðist vera dapur, taldi ímynd múslima hafa orðið fyrir hnekki og það gerði hann hryggan. Karim taldi ekki á það bætandi; að hægt væri að tengja ástandið í miðausturlöndum við átök á Íslandi. Og hann óttast að þeirri hugmynd geti vaxið fiskur um hrygg að múslimum væri ómögulegt að búa við þær reglur sem gilda í hverju landi.

Margvísleg menningarstarfsemi fyrirhuguð í húsinu
Karim segir að nú standi til að reka starfsemi í Ýmishúsinu þá sem alltaf stóð til að reka. Það er margþætt menningarstarfsemi og kennsla. Hann segist ætla að opna húsið fyrir öllum þeim sem hafa áhuga á að kynna sér islam og í öndvegi verði að koma á friði milli allra. Þá verður einnig bænahald stundað í húsinu, en það verði ekki stór þáttur, heldur sem liður í menningarstarfseminni.

Seddeeq ósveigjanlegur og óbilgjarn
„Hann var algerlega fastur í sínum hugmyndaheimi og þoldi engar málamiðlanir. Allt varð að vera eftir hans höfði og hann sparkaði mér út af því að ég vildi ekki sætta mig við það; vildi ekki fylgja vilja hans í einu og öllu,“ segir Karim.
Hann lýsir ástandinu sem óþolandi, lítill hópur, sem aðeins taldi um tíu til tólf manns fylgdi Seddeeq að málum en það búa 2000 manns á Íslandi. Þeim var haldið utan húss sem ætlað er að hýsa þjónustu sem snýr að öllum þeim hópi, og gott betur.
„Það gengur ekki að tíu til tólf leggi undir sig bygginguna. Þetta er fyrir alla múslíma,“ segir Karim. Hann lýsir því að ekki hafi verið kosið um eitt né neitt heldur var þetta algerlega undir hæl Seddeeqs ímans, sem breytti húsinu í mosku.
Eins og áður sagði þá fagnar Karim ekki, þó hann og hans menn hafi haft sigur í þessu stríði; hann óttast að ímyndin hafi beðið hnekki.