Viðskipti innlent

Máttu ekki bjóða upp á félagslegt húsnæði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Samkvæmt lýsingu Íbúðalánasjóðs á eignasafninu eru 2/3 af eignunum í þéttbýli á suðvesturhorninu. Moody's telur að sala eignanna muni styrkja stöðu Íbúðalánasjóðs og styrkja afkomu á næstu árum.
Samkvæmt lýsingu Íbúðalánasjóðs á eignasafninu eru 2/3 af eignunum í þéttbýli á suðvesturhorninu. Moody's telur að sala eignanna muni styrkja stöðu Íbúðalánasjóðs og styrkja afkomu á næstu árum. Fréttablaðið/Vilhelm
Matsfyrirtækið Moody’s segir að sala Íbúðalánasjóðs á Leigufélaginu Kletti, með 450 íbúðum, muni hafa jákvæð áhrif á sjóðinn og styrkja afkomu hans á næstu árum.

Ari Skúlason, hagfræðingur hjá hagfræðideild Landsbankans, tekur undir að salan sé til hagsbóta fyrir sjóðinn. Aftur á móti muni leigan hækka þegar leigusamningar verða endurskoðaðir. Það skjóti skökku við þegar ríkissjóður selur svo margar íbúðir á einu bretti þegar skortur er á félagslegu leiguhúsnæði.

Samkvæmt tilboði er kaupandinn skuldbundinn til að halda leiguverði óbreyttu í 12 mánuði, en óljóst er hvað tekur við eftir það.

Söluferli Kletts var tvískipt. Í fyrri hluta bárust átta tilboð. Í seinni hluta bárust þrjú skuldbindandi tilboð. Munurinn á hæsta og lægsta boði var 901 milljón króna. Tilkynnt var í síðustu viku að meirihluti stjórnar Íbúðalánasjóðs hefði ákveðið að taka tilboði hæstbjóðanda, upp á tíu milljarða, í félagið. Það tilboð átti Almenna leigufélagið, sem er í rekstri GAMMA.

„Ég þekki ekki nákvæmlega plönin en þetta virðist fljótt á litið skjóta svolítið skökku við að vera að losa sig við pakkann í hendur einkaaðila sem sér sér hag í því að vera að reka þetta sem leigustarfsemi,“ segir Ari Skúlason, hagfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans.

Einn fulltrúi í stjórn Íbúðalánasjóðs sat hjá við afgreiðslu stjórnarinnar. Í bókun sem Drífa Snædal lagði fram á stjórnarfundi sagði hún nauðsynlegt að stefna í átt að félagslegum lausnum í stað leigufélaga sem rekin eru í hagnaðarskyni.

„Með sölu á Kletti fer tækifæri forgörðum til að efla félagslegt leiguhúsnæði í samfélagslegri eigu til hagsbóta fyrir almenning og vegur það þyngra en að styrkja fjárhagslega afkomu sjóðsins með sölunni,“ segir í bókuninni.

Stjórnendur Íbúðalánasjóðs hafa aftur á móti bent á að ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hafi samþykkt stofnun Kletts með því skilyrði að leigufélagið yrði rekið tímabundið og á markaðslegum forsendum og ekki mætti niðurgreiða leigu eða nýta eignir þess sem félagslegt húsnæði.

Eygló Harðardóttir húsnæðisráðherra sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að hún gerði ekki athugasemdir við söluna. Þar skipti mestu máli að salan hafi farið fram í opnu söluferli. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×