Innlent

Noel eins og blóm í eggi á Siglu­firði

Jakob Bjarnar skrifar
Noel hefur þegar eignast góða vini fyrir norðan. Á myndinni eru Daníel Pétur kokkur, Daníel Pétur barþjónn (og já þeir heita það sama) Noel, Sirrý Laxdal starfsmaður í móttöku og Sæunn Tamar starfsmaður á Sigló hótel.
Noel hefur þegar eignast góða vini fyrir norðan. Á myndinni eru Daníel Pétur kokkur, Daníel Pétur barþjónn (og já þeir heita það sama) Noel, Sirrý Laxdal starfsmaður í móttöku og Sæunn Tamar starfsmaður á Sigló hótel.

Sirrý Laxdal í móttökunni á Sigló Hótel segir ævintýramanninn Noel Santillan koma afskaplega vel fyrir.

Vísir hefur fylgst með ævintýrum Noels sem í gær lagði óvænt land undir fót, keyrði fyrir mistök landið þvert alla leið norður til Siglufjarðar. En, til stóð að gista í Reykjavík. Noel sagði lesendum Vísis frá því hvernig ferðin norður gekk fyrir sig, nú í morgun.



Noel, sem er 28 ára gamall Bandaríkjamaður frá New Jersey, hefur verið tekið með kostum og kynjum á Siglufirði og hann hefur þegar eignast góða vini í starfsfólkinu á hótelinu hvar hann gisti í nótt.



„Hann Noel kemur mjög vel fyrir er mjög þakklátur fyrir það sem gert er fyrir hann. Hann var mjög hissa þegar ég sagði honum í morgun að hann væri orðinn frægur á Íslandi. Að saga hans væri í öllum fjölmiðlum og á Facebook. Honum fannst þetta sniðugt,“ segir Sirrý.

Noel spókaði sig um í bænum í morgun, kíkti við í bakaríinu og skoðaði Síldarminjasafnið.

Hún segir að Noel hafi verið að enda við að borða. „Já, íslenska kjötsúpu hér hjá okkur, hann fékk í gærkvöldi að smakka harðfisk og hákarl. Við buðum honum að vera hjá okkur aukanótt í okkar boði.“



Fram kom í máli Noels, í viðtali við Vísi fyrr í dag, að hann væri afskaplega ánægður með móttökurnar fyrir norðan.



„Við reynum að hugsa vel um hann en hann fær svo sem sömu þjónustu og allir aðrir við reynum okkar besta.“



Sirrý segir að Noel hafi í morgun farið í göngutúr um bæinn auk þess sem hann kíkti við í bakaríinu á staðnum sem og í Síldarminjasafninu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×