Erlent

Skildi unga dóttur sína eftir á strönd til að deyja

Atli Ísleifsson skrifar
Lögregla hafði uppi á konunni, Fabienne Kabou, með aðstoð mynda úr öryggismyndavélum eftir að lík stúlkunnar fannst.
Lögregla hafði uppi á konunni, Fabienne Kabou, með aðstoð mynda úr öryggismyndavélum eftir að lík stúlkunnar fannst. Vísir/AFP
Réttarhöld hófust í Frakklandi í morgun yfir konu sem sökuð er um að hafa orðið 15 mánaða dóttur sinni að bana með því að skilja hana eftir á strönd í norðurhluta Frakklands á köldu nóvemberkvöldi árið 2013.

Veiðimenn fundu lík stúlkubarnsins degi síðar.

Í frétt BBC segir að lögregla hafi haft uppi á konunni, Fabienne Kabou, með aðstoð mynda úr öryggismyndavélum, en talið er að konan hafi þjáðst af ofskynjunum, glímt við þunglyndi og andleg veikindi.

„Ég batt enda á líf hennar þar sem það var auðveldara þannig,“ sagði konan fyrir rétti og bætti við að sér hafi liðið líkt og einhver hafi hjálpað sér og að hún hafi ekki getað hætt við verknaðinn.

Fjölmiðlar greina frá því að faðir stúlkunnar hafi ekki sýnt nokkurn áhuga á uppeldi dóttur sinnar.

Stúlkan var kölluð Adelaide, en var hvergi skráð í gagnagrunnum hins opinbera og enginn vissi um tilvist hennar að foreldrum hennar frátöldum.

Kabou ferðaðist frá heimili sínu í París í nóvember 2013 til strandbæjarins Berck-sur-mer þar sem hún spurðist fyrir um hvenær væri háflóð og skildi síðar barnið eftir í flæðarmálinu.

Réttarsálfræðingur sagði að uppvöxtur konunnar í Afríkuríkinu Senegal hafi stuðlað að tíðum hugsunum sem sneru að göldrum og umturnað viðhorfum hennar til heimsins.

Verjandi Kabou segir að skjólstæðingur sinn geri sér vel grein fyrir því hvað hann hafi gert og að hann eigi sér engar málsbætur.

Vísir/AFP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×