Kvennalið Vals hefur fengið til sín tvær efnilegar körfuboltakonur fyrir komandi tímabil í Domino´s deild kvenna í körfubolta.
Unglingalandsliðskonurnar Elín Sóley Hrafnkelsdóttir og Elfa Falsdóttir hafa báðar gert samning við Val og ætla spila með Hlíðarendaliðinu á komandi tímabili.
Elfa Falsdóttir kemur úr Keflavík en Elín Sóley Hrafnkelsdóttir úr Breiðabliki. Þær eru báðar í 18 ára landsliði Íslands sem er á leiðinni til Bosníu til að keppa í Evrópukeppninni. Þriðja Valskonan í liðinu er síðan Dagbjört Dögg Karlsdóttir.
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir er miðherji og spilaði með Breiðablik í Domino´s deildinni 2014-15 þegar hún var með 5,6 stig og 5,1 frákast að meðaltali í leik. Elín Sóley var með Blikum í 1. deildinni í fyrra þar sem hún skorað 11,90 stig og tók 6,1 frákast að meðaltali í leik.
Elfa Falsdóttir er bakvörður og var að klára sitt þriðja tímabil í Domino´s deildinni þrátt fyrir ungan aldur. Hún var með 1,5 stig, 1,3 stoðsendingar og 1,0 stolinn bolta að meðaltali með Keflavík á síðustu leiktíð.
Elín Sóley og Elfa hjálpuðu 18 ára landsliðinu að vinna brons á Norðurlandamótinu á dögunum en þar var Elín Sóley með 8,0 stig og 5,4 fráköst að meðaltali en Elfa skoraði 6,0 stig og var með yfir einn þrist að meðaltali í leik á þeim 12,0 mínútum sem hún spilaði í leik.
Elfa Falsdóttir er dóttir Fals Harðarsonar og Margrétar Sturlaugsdóttur sem bæði hafa unnið Íslandsmeistaratitla með Keflavík og spilað með íslenska A-landsliðinu.
