Lífið

Fjallað um myrkrið og fegurð þess

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Kælan mikla hefur sent frá sér sína fyrstu plötu sem nefnist einfaldlega Kælan mikla og fæst einungis í stafrænu formi og á vínyl eins og er.
Kælan mikla hefur sent frá sér sína fyrstu plötu sem nefnist einfaldlega Kælan mikla og fæst einungis í stafrænu formi og á vínyl eins og er. Vísir/Eyþór
Er þetta fyrsta platan ykkar?



„Þetta er fyrsta breiðskífan – við höfum sent frá okkur litla útgáfu áður, við gáfum út 50 geisladiska þar sem við gerðum til dæmis sjálfar hulstrin og svona. Síðan höfum við gefið út á netinu, plötu sem er bara á Bandcamp. Þetta er fyrsta alvöru útgáfan sem við gerum í gegnum útgáfufyrirtæki.“

Er löng vinna bak við plötuna?

„Ekkert rosalega – við sömdum allt efnið sem er á plötunni á innan við ári, þetta eru átta lög og við tókum þetta upp sjálfar, við fórum ekki í stúdíó heldur gerðum við þetta í stofunni hjá Sólveigu syntha-leikara hljómsveitarinnar og vinur okkar tók upp. Það tók okkur mánuð að gera það en bara tvö upptöku-sessjon – það var erfitt að finna lausan tíma, það var aðallega það.“

Eru einhver þemu eða sérstök umfjöllunarefni á plötunni?

„Þemað á þessari plötu er svolítið mikið myrkrið og það hvað myrkrið er fallegt.“

Nú voruð þið nýlega að ljúka rosalegum Evróputúr – hvernig var það?

„Það var alveg magnað. Við fórum til tíu borga – keyrðum 3.000 kílómetra og spiluðum sjö gigg ef ég man rétt: fjögur í Þýskalandi, síðan í Slóvakíu og Varsjá í Póllandi. Það var allt öðruvísi en að spila hérna heima – það er komið mikið betur fram við mann, fólk hefur meiri áhuga. Maður er alltaf að spila á sömu stöðunum heima, þetta er náttúrulega svo lítið – en á meðan maður er úti fær maður borgað og mat og gistingu og manni er sýnd meiri virðing. Það er svolítið þannig hérna heima að maður á að vera þakklátur fyrir að fá að spila – auðvitað ekki alltaf en oft.“

Voru ekki einhver vandræði með staðsetninguna á útgáfutónleikunum ykkar?

„Þetta átti að vera í rými úti á Granda hjá vini okkar sem heitir Kenneth – hann hefur t.d. verið að halda goth-partí þar og er flottur tónlistarmaður. En síðan fór lögreglan að blanda sér í málið og segja að það mætti ekki hafa tónleika þarna og að þeir myndu kippa úr sambandi ef við gerðum það.

Þeir töluðu við Kenneth og fóru að skipta sér af en ég veit ekki hvernig þeir sáu að við ætluðum að vera þar. En við færðum þetta á síðustu stundu á Gaukinn – sem er voða næs, Gaukurinn er fínn staður.

Upphitunin er í höndum vinar okkar sem tók upp plötuna, hann heitir Arnar Már – hann spilar með nýju „projecti“ sem hann er að gera sem heitir Kuldaboli. Hann gerir rosalega flotta dark og minímalíska syntha-tónlist. Það er mjög viðeigandi vegna þess að hann tók upp allt efnið okkar. Hann hefur áður verið að spila undir nafninu Ultraorthodox en núna er hann að spila nýtt efni undir nýju nafni.“



Platan kom út 30. júní á Bandcamp þar sem er hægt að hala henni niður á 1.000 krónur
.

Síðan er hún til í versluninni Lucky Records á Rauðarárstíg á vínyl – þær stefna á að koma plötunni út á geisladisk einhvern tímann eftir sumarið. Útgáfutónleikarnir fara fram á Gauknum næstkomandi laugardagskvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×