Erlent

Alexei Navalny ætlar að bjóða sig fram til forseta í Rússlandi

Samúel Karl Ólason skrifar
Alexei Navalny.
Alexei Navalny. Vísir/EPA
Alexei Navalny, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Rússlandi, hefur tilkynnt að hann ætli að bjóða sig fram í forsetakosningunum þar í landi sem fara fram á næsta ári. Navalny er þekktur fyrir að berjast gegn spillingu og hefur hann margsinnis sakað Vladimir Putin, forseta Rússlands, og bandamenn hans um spillingu.

Hins vegar standa nú yfir réttarhöld gegn Navalny vegna meintrar spillingar. Stuningsmenn hans segja réttahöldin anga af pólitík. Hann hefur verið sakaður um að draga að sér fé. Verði hann sakfelldur gæti honum verið meinað að bjóða sig fram til opinbers embættis.

Putin hefur ekki sagt af eða á um hvort hann muni bjóða sig fram í fjórða sinn, en samkvæmt AP fréttaveitunni er fastlega gert ráð fyrir því að hann muni bjóða sig fram.

Í tilkynningu sinni segir Navalny að hann muni berjast fyrir auknum jöfnuði, berjast gegn spillingu og auka fjárveitingar til menntamála og heilbrigðismála. Þá vilji hann draga úr stríðsrekstri Rússlands og gera umbættur í löggæslu og dómsmálum í landinu.

AP segir ríkisrekna fjölmiðla Rússlands hafa lítið sem ekkert fjallað um tilkynningu Navalny.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×