Innlent

Sigmundur Davíð ætlar ekki að hætta í stjórnmálum

Sveinn Arnarsson skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vandar Sjálfstæðisflokknum ekki kveðjurnar í bréfi sínu til flokkssystkina.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson vandar Sjálfstæðisflokknum ekki kveðjurnar í bréfi sínu til flokkssystkina.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, sendi félögum sínum bréf í gær þess efnis að hann myndi snúa aftur úr leyfi þegar þing kæmi aftur saman í ágúst. Sagði hann mikilvægt að ekki yrði anað út í kosningar til Alþingis fyrr en sitjandi ríkisstjórn hefði klárað ýmis stór og mikilvæg mál í þinginu.

Í bréfi formannsins til flokkssystkina sinna segir hann hluta samstarfsmanna í Sjálfstæðisflokknum verið áhugasaman um að flýta kosningum. Segir hann mikilvægt að sitjandi stjórnvöld flýti sér ekki í kosningar heldur haldi áfram að vinna að sínum málum. „Ríkisstjórnin sem ekki nýtir tímann sem henni er veittur getur ekki gengið út frá því sem vísu að hún fái tækifæri til að klára verkefnin síðar,“ segir í bréfinu.

Þeir sjálfstæðismenn sem Fréttablaðið náði tali af í gær vildu ekki tjá sig efnislega um bréf Sigmundar Davíðs. Hins vegar voru allir á einu máli um að Sjálfstæðisflokkurinn væri á leið í kosningar á haustmánuðum hvað sem orðum formanns Framsóknarflokksins liði. Þing mun koma saman á nýjan leik þann 10.?ágúst næstkomandi til að klára nokkur mál sem náðust ekki fyrir forsetakosningarnar í júní.

Fréttablaðið reyndi að ná tali af formanni Framsóknarflokksins en það bar ekki árangur. Ekki náðist í forsætisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, þar sem hann var í hestaferð.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×