Viðskipti innlent

Ætla að bregðast við áður en vaxtamunarviðskiptin verða vandamál

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Aðalhagfræðingur Seðlabankans segir að Seðlabankinn muni bregðast við í tæka tíð áður en vaxtamunarviðskipti útlendinga á Íslandi verði vandamál. Útlendingar hafa fjárfest í ríkisskuldabréfum fyrir meira en 60 milljarða króna á einu ári til að græða á vaxtamun Íslands við útlönd.

Sendinefnd Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varaði í síðasta mánuði við því að mesta áhættan í íslensku efnahagslífi gæti verið önnur kollsteypa eftir ofþenslu. Það væri endurtekið efni frá því sem gerðist hér fyrir árið 2008. AGS telur að aukin ríkisútgjöld myndu bætast við ríflegar launahækkanir og kynda undir eftirspurn innanlands. Slík þróun myndi kalla á enn meiri vaxtahækkanir og hærri vextir gætu laðað hingað aukin vaxtamunarviðskipti sem gætu grafið undan fjármálastöðugleika.

Stýrivextir eru nú 5,75 prósent. Vaxtamunarviðskiptin eru hafin á ný en frá sumrinu 2015 hafa erlendir fjárfestar keypt íslensk ríkisskuldabréf fyrir 60 milljarða króna með það fyrir augum að hagnast á meira en 3 prósenta raunstýrivaxtamun Íslands við útlönd. Snjóhengjan svokallaða, sem Íslendingar eru enn að bíta úr nálinni með, er einmitt til komin að hluta vegna vaxtamunarviðskipta fyrir bankahrunið. Á fjármálamarkaði hafa menn miklar áhyggjur af því að þetta vandamál sé að skapast að nýju og stjórnvöld fljóti sofandi að feigðarósi.

Hafið þið ekki áhyggjur af auknum vaxtamunarviðskiptum?

„Jú, við höfum áhyggjur af því að þetta fari í eitthvað sem við höfum ekki stjórn á eins og gerðist fyrir fjármálakreppuna. Enn sem komið er erum við langt frá því. Þetta jókst töluvert í ágúst og hafði áhrif á miðlun peningastefnunnar sem okkur þótti óheppilegt. Það hægði á þessu í vetur en hefur aðeins aukist núna en þetta er ekki af þeirri stærðargráðu að þetta valdi einhverjum verulegum áhyggjum,“ segir Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans.

Þórarinn segir að Seðlabankinn muni bregðast við ef þetta fer úr böndunum. Bankinn hafi þegar þróað þjóðhagsvarúðartæki til að vernda fjármálastöðugleika.

„Það er í farvatninu að þróa og kynna þjóðhagsvarúðartæki sem gæti tekið beint á þessu innflæði sem gæti orðið,“segir Þórarinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×