Innlent

Þrefalt fleiri sótt um vernd í ár heldur en í fyrra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Útlendingastofnun fer með málefni hælisleitenda hér á landi.
Útlendingastofnun fer með málefni hælisleitenda hér á landi. Vísir/Stefán
Alls hafa 177 einstaklingar sótt um vernd hér á landi það sem af er ári en það er þrisvar sinnum meiri fjöldi en á sama tíma í fyrra.

Í aprílmánuði sóttu 42 einstaklingar frá 17 löndum um vernd á Íslandi en flestir umsækjendur komu annars vegar frá Makedóníu og hins vegar frá Írak, eða fimm frá hvoru landi. Alls komu 29 prósent umsækjenda frá löndum Balkanskagans, 79 prósent umsækjenda voru karlkyns og 79 prósent umsækjenda fullorðnir.

Þá fékkst niðurstaða í 39 mál í aprílmánuði. 25 mál voru tekin til efnislegrar meðferðar, 13 mál voru afgreidd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar og viðkomandi því vísað úrlandi og einn umsækjandi hafði þegar fengið vernd annars staðar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Útlendingastofnun:

„Af þeim 25 málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar lauk sjö málum með ákvörðun um veitingu verndar, fimm með veitingu viðbótarverndar og 13 málum lauk með synjun. 15 efnismál voru afgreidd á grundvelli forgangsmeðferðar í apríl.

 

Umsækjendur sem fengu vernd í mánuðinum komu frá Íran, Palestínu, Sómalíu og Sýrlandi en synjun fengu Albanir, Makedóníumenn og Kanadamaður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×