Erlent

Lentu í vandræðum með femíníska snjómokstursaðferð í Stokkhólmi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svíar gerðu um daginn tilraun með nýtt skipulag á snjómokstri í höfuðborg sinni, Stokkhólmi. Veðurfarið þar undanfarið hefur ekki verið með besta móti og hefur snjóað dag eftir dag. Snjóruðningsmenn hafa því haft í nógu að snúast og hefur verið gripið til nýstárlegra aðferða við skipulagningu á snjómokstrinum.

Aðferðin sem um ræðir kallast „femínísk snjómokstursaðferð“ en það þýðir að snjómokstur á smærri götum við skóla, leikskóla og íbúðahúsnæði er settur í forgang umfram stofnæðar. Þetta kemur fram í viðtali í Reykjavík síðdegis við Kristján Sigurjónsson í dag. Kristján er ritstjóri ferðafréttasíðunnar Túristi.is og er búsettur í Stokkhólmi. 

Hugmyndin er sú að með þessu sé barnafjölskyldum gert auðveldara að komast á milli staða. Fólk væri því sett í fyrsta á sæti á undan bílunum. Er þetta liður í tilraun borgaryfirvalda til þess að tryggja að starfsemi borgarinnar, sem í þessu tilviki felst í snjómokstri, henti öllum hópum samfélagsins jafnt.

Í frétt Aftonbladet kemur fram að konur eru mun líklegri til þess að vera í hópi gangandi og hjólandi vegfarenda heldur en karlar sem oftar eru á bílum.

Tilraunin gekk þó ekki betur en svo að vegna þessa var hafist of seint handa við að ryðja helstu stofnæðar og komust margir bílar hvorki lönd né strönd. Voru borgarstarfsmenn Stokkhólmar ekki ánægðir með tilraunina og óljóst hvort þetta verði reynt aftur. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×