Fótbolti

Oliver: Þeir yfirspiluðu okkur

Oliver í baráttunni í dag.
Oliver í baráttunni í dag. mynd/ksí
Oliver Sigurjónsson, fyrirliði U21-árs landslið Íslands, segir að Frakkarnir hafi einfaldlega yfirspilað íslenska liðið, en Ísland tapaði 2-0 fyrir Frakklandi í Caen í dag.

„Þeir voru bara miklu betri. Þeir yfirspiluðu okkur og voru bara kvikari. Þeir voru mun betri í dag, það verður bara að segjast," sagði fyrirliðinn Oliver í samtali við KSÍ.

„Þetta var ekki eins og fyrri leikurinn gegn þeim, en svona er þetta. Við eigum tvo leiki eftir og við þurfum að klára þá til að komast áfram og það er það mikilvægasta."

„Við erum ekki nógu kvikir, við erum ekki með nægilega gott tempó. Við hreyfum okkur ekki nóg og þeir eru með betri hlaupagetu og meiri styrk."

„Síðan eru þeir mjög góðir í fótbolta og þeir klára færin sín vel. Við vorum ekki góðir í dag í því sem við erum yfirleitt góðir í; ekki nægilega þéttir, ekki góð föst leikatriði og það þurfa allir að bera ábyrgð á því."

Fyrra mark Frakklands kom snemma í leiknum, en það kom eftir innkast Íslendinga á vallarhelming Frakklands. Oliver var ósáttur með það.

„Við fáum það eftir fast leikatriði hjá okkur. Við erum bara of lengi til baka sem er ekki gott og þarna eigum við bara að brjóta eða vera sneggri til baka."

„Við þurfum að læra af þessu. Þetta eru góðir fótboltamenn og það er erfitt að koma til baka þegar svona gaurar eru að spila fótbolta."

Ísland þarf að vinna síðustu tvo leikina í riðlinum og þá er það komið þangað sem það dreymir, á EM í Póllandi næsta sumar.

„Við erum enn í möguleika. Við erum í bullandi séns. Við höfum bara eitt markmið. Það þýðir ekkert að vera pæla of mikið í þessum leik í dag."

„Þetta er bara landsliðs standard sem maður á að setja sér. Við þurfum bara að halda áfram að vinna í okkar hlutum," sagði Oliver að lokum.


Tengdar fréttir

Umfjöllun: Tveggja marka tap í Caen

Íslaenska landsliðið í knattspyrnu skipað leikmönnum 21 árs og yngri tapaði 2-0 gegn Frakklandi í undankeppni EM U21-liða, en leikið var í Caen í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×