Viðskipti innlent

Frumvarpið brjóti gegn friðhelgi einkalífs

Sveinn Arnarsson skrifar
Kauphöll Íslands
Kauphöll Íslands
Forsvarsmenn Kauphallar Íslands eru uggandi yfir heimildum Seðlabanka Íslands til upplýsingaöflunar um gjaldeyrisviðskipti í nýju frumvarpi fjármálaráðherra um gjaldeyrismál. Segir Páll Harðar­son, forstjóri Kauphallarinnar, heimild bankans ganga of langt.

Páll Harðarson er forstjóri Kauphallar Íslands.
„Að okkar mati gengur eftirlitsheimild Seðlabankans allt of langt. Í frumvarpinu er aðilum gert skylt að upplýsa, og það að viðlögðum dagsektum, um öll gjaldeyrisviðskipti milli landa. Hér er sum sé skylda að segja frá öllum fjármagnshreyfingum,“ segir Páll. 

„Þess konar eftirlit er ekki í anda annars konar eftirlits hér á landi og hefðum við talið eðlilegra að viðhafa sams konar eftirlit með þessu eins og öðru að yfirvaldi sé heimilt að rannsaka og kalla eftir upplýsingum þegar grunur er um refsivert athæfi.“

Persónuvernd hefur einnig sent inn umsögn um frumvarpið sem er um sama efni. Telur stofnunin að varlega þurfi að fara til að gæta friðhelgi einkalífs einstaklinga.

Fréttin birtist upphaflega í Fréttablaðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×