Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta fagnaði í fyrrakvöld frábærum sigri á toppliði síns riðils í Laugardalshöllinni þegar íslensku stelpurnar unnu tíu stiga sigur á Ungverjum.
Ísland vann leikinn 87-77 eftir að hafa verið yfir allan leikinn og mest náð 21 stigs forystu í byrjun seinni hálfleiks.
Þrír leikmenn íslenska liðsins voru þarna að fagna öðrum stórum sigri í Laugardalshöllinni á stuttum tíma því aðeins ellefu dögum áður unnu þær Gunnhildur Gunnarsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Berglind Gunnarsdóttir bikarmeistaratitilinn með Snæfelli eftir sigur á Grindavík í úrslitaleiknum.
Gunnar Svanlaugsson gat heldur betur verið stoltur af sínum stelpum í leikslok, bæði sem faðir tveggja þeirra (Gunnhildur og Berglind) og svo einnig sem formaður Körfuknattleiksdeildar Snæfells en ekkert félag átti fleiri leikmenn í leikmannahópnum.
Snæfell var þá að vinna sinn fyrsta bikarmeistaratitil í sögu kvennaliðs félagsins en Gunnhildur (með Haukum) og Bryndís (með Keflavík) höfðu reyndar orðið bikarmeistarar áður. Berglind, Íslandsmeistari með Snæfelli undanfarin tvö ár, vann sinn fyrsta bikarmeistaratitil eins og fleiri í Snæfellsliðinu.
Íslenska kvennalandsliðið vann á miðvikudagskvöldið sinn fyrsta sigur í riðlinum í undankeppni EM 2017 og jafnframt fyrsta sigur sinn í Evrópukeppni frá því í lok ágúst árið 2009. Bryndís var með í þeim leik (á móti Írlandi) en að voru nokkur ár í það að systurnar Gunnhildur og Berglind spiluðu sinn fyrsta A-landsleik.
Hólmararnir þrír í íslenska landsliðinu fengu það eflaust á tilfinninguna að eitthvað skemmtilegt væri í vændum þegar staðan var 22-15 fyrir Ísland eftir fyrsta leikhlutann. Snæfell var einmitt 22-15 yfir á móti Grindavík eftir fyrsta leikhlutann í bikarúrslitaleiknum.
Gunnhildur Gunnarsdóttir var með 23 stig í bikarúrslitaleiknum og hún skoraði 14 stig í sigrinum á Ungverjum í gærkvöldi. Bryndís var með 13 stig og 16 fráköst í bikarúrslitaleiknum en var með 7 stig, 5 fráköst og 3 stoðsendingar í Ungverjaleiknum. Berglind tókst ekki að skora í gærkvöldi en var með 12 stig og 5 fráköst í bikarúrslitaleiknum.
Tvær Grindavíkurkonur, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Ingunn Embla Kristínardóttir, fengu líka að kynnast sigurtilfinningunni í Höllinni í fyrrakvöld eftir að hafa tapað bikarúrslitaleiknum ellefu dögum fyrr.
Bikarúrslitaleikurinn var síðasti leikurinn fyrir landsleikjahléð en framundan er síðan baráttan um deildarmeistaratitilinn og síðustu sætin inn í úrslitakeppnina.
Tveir magnaðir Hallarsigrar á ellefu dögum hjá þremur Hólmurum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

„Hann hefði getað fótbrotið mig“
Enski boltinn


VAR í Bestu deildina?
Íslenski boltinn

Howe lagður inn á spítala og missir af leiknum
Enski boltinn






Fleiri fréttir
