Lífið

Matur beint frá býli í Hörpu

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Þær Eirný og Hlédís héldu fyrsta matarmarkaðinn fyrir um fimm árum. Síðan þá hefur hann vaxið mikið og farið frá því að vera haldinn í litlu tjaldi yfir í að vera í Hörpunni.
Þær Eirný og Hlédís héldu fyrsta matarmarkaðinn fyrir um fimm árum. Síðan þá hefur hann vaxið mikið og farið frá því að vera haldinn í litlu tjaldi yfir í að vera í Hörpunni. Fréttablaðið/Stefán
Það myndast svo mikil stemming á markaðnum og það er ekki síður það sem gerir þetta svona skemmtilegt,“ segir Hlédís Sveinsdóttir. Hún, ásamt Eirnýju Sigurðardóttur, stendur fyrir Matarmarkaði Búrsins sem haldinn er í Hörpu um helgina.

Markaðurinn var haldinn fyrst fyrir fimm árum og hefur vaxið töluvert síðan þá. Fyrst var hann haldinn í litlu tjaldi fyrir utan sælkeraverslunina Búrið en verður núna haldinn í áttunda sinn í Hörpu. „Núna eru þetta um 50 framleiðendur sem taka þátt en þeir voru fimmtán fyrst. Þetta hefur stækkað hratt, þegar við fórum fyrst að tala um þetta þá fannst okkur vanta þessa matarmarkaðsstemningu á Íslandi. Við kýldum bara á þetta og héldum fyrsta markaðinn fimm dögum seinna. Okkur óraði ekki fyrir því þá að þetta myndi stækka svona fljótt,“ segir Hlédís.

Á matarmarkaðnum gefst fólki kostur á að kaupa vöru beint af framleiðenda. Allar vörur sem seldar eru á markaðnum eru framleiddar hér á landi. Ýmislegt verður til sölu; kjöt, fiskur, brauð, konfekt, brjóstsykur og krydd, svo eitthvað sé nefnt. „Þorgrímur á Erpsstöðum er til dæmis að selja, hann býr sjálfur til ís sem hann selur í brauðformi á markaðnum. Ómar frá Hornafirði verður líka þarna en hann veiðir sjálfur, verkar, reykir og selur svo fiskinn,“ segir Hlédís en framleiðendum sem taka þátt hefur fjölgað mikið. „Það er mismunandi hvaða framleiðendur taka þátt hverju sinni og nú er fólk farið að mæta til að kaupa eitthvað sem það keypti á síðasta markaði.“

Hlédís segir aukna vitund vera um að kaupa beint frá býli, vörur sem þú veist hvaðan koma og hvað er í þeim. „Það er okkar að uppfræða næstu kynslóð. Það skiptir máli hvernig er farið með skepnuna. Það er margt í þessu sem við þurfum að huga að. Við viljum endilega hvetja fólk til að koma með börn á markaðinn. Leyfa þeim að upplifa, smakka og ræða við þau um uppruna og innihald matar. Við stoppum t.d. ekki matarsóun nema að kenna þeim að bera meiri virðingu fyrir matnum.“

Matarmarkaðurinn er opinn bæði laugardag og sunnudag frá 11-16 og aðgangur er ókeypis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×