Lífið

Nýtt og spennandi starf

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
“Það er dásamlegt að vera hér á Hólum en nú verð ég að færa mig um set,” segir Guðrún Þóra.
“Það er dásamlegt að vera hér á Hólum en nú verð ég að færa mig um set,” segir Guðrún Þóra. Mynd/Úr einkasafni
„Ég held að það blasi við öllum að þörf er á aukinni þekkingu í ferðamálum á Íslandi, atvinnugrein sem hefur ört vaxandi efnahagsleg áhrif, áhrif á umhverfið og samfélagið í heild. Við höfum ekki búið svo lengi í sambýli við ferðaþjónustu að við erum á hverjum degi að takast á við eitthvað nýtt,“ segir Guðrún Þóra Gunnarsdóttir lektor sem tekur við forstöðu Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála innan skamms af Kristínu Sóleyju Björnsdóttur.

Þrír háskólar reka Rannsóknarmiðstöð ferðamála, Háskólinn á Akureyri þar sem miðstöðin er vistuð, Háskóli Íslands og Háskólinn á Hólum. Einnig eiga fulltrúar frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofu fulltrúa í stjórn að sögn Guðrúnar Þóru.

„Þetta er vettvangur akademíunnar og greinarinnar til að sinna rannsóknum á sviði ferðamála og forstöðumaður á að leiða það starf og efla.“

Rannsóknarmiðstöðin rekur upphaf sitt til 1999. Guðrún Þóra telur hana hafa haft ótvírætt gildi, meðal annars fyrir stefnumótun bæði á lands-og svæðavísu. Hún segir mörg og ólík úrlausnarefni blasa við í rannsóknum, í samstarfi akademíunnar, atvinnulífsins og opinberra stofnana.

„Við erum ört að þroskast í umræðu um ferðamál, enda um tiltölulega unga atvinnugrein að ræða og áttum okkur orðið á að það er ekki keppikefli að ferðamannafjöldinn sé sem mestur. Það er mikið um ferðaþjónustu fjallað í fjölmiðlum miðað við fyrir fimm árum og nú eru bankarnir farnir að gefa út veglegar skýrslur um hana og halda fundi. Hún er allt í einu orðin lykilatvinnugrein.“

Guðrún hefur búið og starfað á Hólum í tvo áratugi. „Ég var deildarstjóri ferðamáladeildar, setti hana á flot og hef verið hér sem lektor síðan 2009.  Ég lít á þann feril sem góðan undirbúning undir þetta nýja starf. Hér á Hólum er dásamlegt að vera en nú verð ég að færa mig um set.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×