Innlent

Þyrlu hlekktist á á Hengilssvæðinu

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Mikill viðbúnaður var vegna slyssins
Mikill viðbúnaður var vegna slyssins Vísir/MHH
Þyrlu hlekktist á norðaustan við Nesjavallavirkjun fyrr í kvöld. Fimm manns voru um borð í þyrlunni en búið er að flytja þá á Landspítalann í Fossvogi.

Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum eru fimmenningarnir komnir á bráðamóttöku og eru þau þar í rannsóknum. Tveir verða undir eftirliti í nótt og þrír voru lagðir inn vegna beinbrota og annarra meiðsla.

Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst klukkan 19:45 í kvöld tilkynning í gegnum gervihnattatungl að neyðarboð hefði borist frá þyrlu sem stödd var á Hengilssvæðinu. Þá þegar voru tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar kallaðar út og var þyrla farin í loftið skömmu seinna.

Stuttu eftir að neyðarboð hafði borist til Landhelgisgæslunnar náðu farþegar um borð í þyrlunni að hringja á Neyðarlínuna og gefa upp nákvæmari staðsetningu þyrlunnar og upplýsingar um ástand fólks um borð.

Um 20:20 var áhöfn þyrlu Landhelgisgæslunnar búin að finna þyrluna og rétt um tíu mínútum síðar hafði hún náð að taka alla farþegana fimm um borð. Var þá björgunarsveitum og slökkviliði snúið til baka. Flaug þyrla Landhelgisgæslunnar með farþegana á sjúkrahús í Reykjavík.

Lögregla og björgunarsveitir ásamt fulltrúum Rannsóknarnefndar samgönguslysa eru nú á slysstað en þyrlan er talin mikið skemmd. Önnur þyrla Landhelgisgæslunnar verður þeim innan handar.

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×