Viðskipti innlent

„Viljum standa jafnfætis keppinautum okkar“

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá aðalfundi Samtaka leikjaframleiðenda eða IGI.
Frá aðalfundi Samtaka leikjaframleiðenda eða IGI. MYND/SI/ODD STEFÁN
Mikill vöxtur hefur verið í leikjaiðnaði á Íslandi á undanförnum árum. Mögulega gæti geirinn orðið ein af grunnstoðum íslensks efnahagslífs, með réttum stuðningi. Nýtt frumvarp sem ætlað er að styðja við bakið á nýsköpunarfyrirtækjum er til umræðu á Alþingi í dag. Frumvarpinu er ætlað að bæta samkeppnisstöðu Íslands og færa lagaumhverfi nær því eins og það er í öðrum þjóðum.

Aðalfundur Samtaka leikjaframleiðenda, eða IGI, fór fram í síðustu viku, en þrettán fyrirtæki eru nú í samtökunum. Þá eru átján fyrirtæki að framleiða tölvuleiki hér á landi. Hér að neðan má sjá samantektarmyndband frá fundinum.

Í myndbandinu er rætt við Hilmar Veigar Pétursson, forstjóra CCP og fráfarandi formann IGI, Vignir Guðmundsson, forstjóra Radiant Games og núverandi formann IGI, og Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóra Samtaka Iðnaðarins. Þá er einnig sýnt frá erindum sem flutt voru á aðalfundinum.

Sjá einnig: Leikjaiðnaðurinn blómstrar á íslandi.

Í tilkynningu frá Samtökum Iðnaðarins, sem IGI eru aðilar að, segir að SI hafi ávallt lagt áherslu á að rekstrarumhverfi íslenskra nýsköpunarfyrirtækja þurfi að komast nær því sem gerist annars staðar. Það þurfi til þess að þau nái að dafna vel og vaxa hratt. Lengi hafi verið kallað eftir breytingum í skattaumhverfinu.

Í dag er til umræðu á Alþingi nýtt frumvarp sem ætlað er að taka skref í þá átt að auka samkeppnishæfni íslenskra nýsköpunarfyrirtækja. 

Almar Guðmundsson segir  í tilkynningunni að frumvarpið veiti mikilvægan stuðning við íslensk nýsköpunarfyrirtæki sem mörg hver eru að starfa á alþjóðlegum mörkuðum.

„Með fyrirhuguðum breytingum eru stigin stór skref í þá átt að gera nýsköpunarfyrirtækjum kleift að auka verðmætasköpun. Við viljum því gjarnan sjá að þingmenn taki frumvarpinu fagnandi og veiti því brautargengi. Við erum stödd í einni mestu tæknibyltingu sögunnar með ótal tækifærum til að ná á alþjóðlega markaði með nýjar afurðir. Við viljum að íslensk iðnfyrirtæki taki þátt í þeirri byltingu með því að stunda öflugar rannsóknir og þróun en Ísland á í harðri samkeppni þegar kemur að rannsóknum og þróun.

Við viljum standa jafnfætis keppinautum okkar út um allan heim því við vitum að samfélög sem ná að skapa nýja tækni munu skara  fram úr. Með þessum mikilvægu breytingum sem í frumvarpinu felast erum við að tryggja samkeppnishæfni, efla nýsköpun og framfarir sem kemur okkur öllum til góða með aukinni hagsæld.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×