Viðskipti innlent

Svona finnur þú falin skilaboð á Facebook sem þú vissir ekki af

Bjarki Ármannsson skrifar
Samfélagsmiðillinn Facebook lumar á ýmsum krókum og kimum sem notendur vita ekki endilega af.
Samfélagsmiðillinn Facebook lumar á ýmsum krókum og kimum sem notendur vita ekki endilega af. Vísir/Getty
Samfélagsmiðillinn Facebook lumar á ýmsum krókum og kimum sem notendur vita ekki endilega af. Meðal þeirra er vandlega falin skilaboðamappa þangað sem skilaboð til þín geta ratað án þess að þú hafir hugmynd um það.

Í október síðastliðnum breytti Facebook viðmóti sínu að þessu leytinu til. Áður var hver notandi með tvær möppur undir skilaboð; í aðra setti Facebook öll þau skilaboð sem síðan taldi öruggt að ættu beint erindi við þig og í hina, sem opna þurfti sérstaklega, rötuðu þau „útsíuðu“ skilaboð sem síðan taldi að væri ruslpóstur frá ókunnugum.

Hér finnur þú möppuna sem um ræðir.Vísir
Eftir breytingarnar er það nú þannig að öll skilaboð sem ekki eru frá vinum þínum á Facebook rata í möppuna „skilaboðabeiðnir“ eða „message requests“. Þar getur fólk óskað eftir því að hefja við þig samtal þó þið séuð ekki vinir á Facebook.

Nema hvað, ein önnur mappa er til sem alls ekki allir notendur vita af og er ólíklegt að maður rekist á án þess að maður leiti hennar sérstaklega.

Þetta er mappan „útsíaðar skilaboðabeiðnir“ eða „filtered message requests“. Hana finnur maður með því að opna skilaboðagluggann líkt og til að skoða skilaboðabeiðnir og smella svo á „meira“.

Ef maður vill finna möppuna í gegnum snjallsímaforrit Facebook, þarf að smella á „stillingar“ eða „settings,“ „fólk“ eða „people“ og þar er hægt að skoða möppuna.

Stutt kennslumyndband á ensku sem fer í gegnum ferlið.

Sem fyrr segir, vita tiltölulega fáir af þessari möppu. Henni er ætlað að grípa ruslpóst ýmis konar frá fólki sem vill hag notenda ekki sem mestan en dæmi eru um það að ansi mikilvæg skilaboð hafi ratað þangað og notendur ekki séð þau fyrr en seint og um síðir.

Til að mynda greinir Business Insider frá tilfelli manns sem sá ekki skilaboð maka vinar síns úr menntaskóla þess efnis að vinur hans væri fallin frá fyrr en tveimur mánuðum síðar. Þá kom í ljós við vinnslu þessarar fréttar að blaðamaður 365 missti fyrir nokkru af heimsókn erlends kunningja til Íslands vegna þess að skilaboðin rötuðu í huldumöppuna.

Notendur Twitter segja margir svipaða sögu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×