Innlent

Framkvæmdastjórum bar að afla leyfis stjórnar

Þórdís Valsdóttir skrifar
Forstjóri FME segir að tilkynning um viðskipti með aflandsfélög nægi ekki.
Forstjóri FME segir að tilkynning um viðskipti með aflandsfélög nægi ekki. vísir/Vilhelm
Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, segir að ekki nægi fyrir framkvæmdastjóra lífeyrissjóðs að tilkynna viðskipti með aflandsfélög til stjórnar lífeyrissjóðsins. Samkvæmt lögum ber honum að afla leyfis stjórnar.

Í lögunum er einnig tekið fram að eignarhlutur í fyrirtæki teljist þátttaka í atvinnurekstri nema um sé að ræða óverulegan hlut sem ekki veitir bein áhrif á stjórn þess.

Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Fréttablaðið/Ernir
„Komi upp það tilvik að framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs stofni eða kaupi verulegan eignarhlut í fyrirtæki er honum því skylt að leita fyrirfram samþykkis stjórnar fyrir viðskiptum,“ segir Unnur Gunnarsdóttir.

Í umfjöllun Kastljóss á mánudag kom fram að tveir framkvæmdastjórar íslenskra lífeyrissjóða tengdust nokkrum aflandsfélögum.

Kári Arnór Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Stapa, og Kristján Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, voru báðir skráðir eigendur aflandsfélaga og hvorugur þeirra aflaði leyfis stjórnar fyrir þátttöku sinni í viðskiptunum.

Jón Bjarni Gunnarsson, formaður stjórnar Sameinaða lífeyrissjóðsins, sagði í samtali við mbl.is að hann teldi ekki víst að Kristján Örn hafi gerst brotlegur með því að tilkynna stjórninni ekki um félögin. Staða Kristjáns Arnar verður rædd á stjórnarfundi lífeyrissjóðsins í dag.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. apríl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×