Ferðamenn á leið um Breiðdal í sumar hafa rekið upp stór augu að sjá óvænt hreindýr rétt við þjóðveginn. Tvo tarfa sáum við í fjörunni rétt utan við Breiðdalsvík í landi Snæhvamms. Ferðamenn standast ekki mátið að stíga út úr bílnum og ná af þeim myndum. Það vakti athygli okkar hvað hreindýrin voru spök og létu ferðamennina ekkert trufla sig.
Þegar við svo ókum inn í sveitina sáum við aðra tvo tarfa við kirkjustaðinn Heydali. Sóknarpresturinn Gunnlaugur Stefánsson segir okkur að dýrin hafi haldið sig á túnum prestssetursins í allt sumar.
„Þetta er nýtt að við skulum hafa þau hér yfir sumartímann, hérna bara alveg við bæinn, bókstaflega, vegna þess að þau eru hérna bara við húsdyrnar mínar á morgnana þegar ég kem út,” segir Gunnlaugur.

„Venjulega eru hér í kringum okkur síðla vetrar hátt í hundrað dýr, sem eru hérna í kring, - á túnunum í kringum bæinn. Þessir tveir tarfar urðu viðskila við hópinn og fóru ekki til fjalla með þeim og hafa verið hér síðan, og eru miklir vinir okkar, og eru til þess að gera bara spakir. Okkur finnst við þekkja þá, og þeir þekkja okkur, - finnst okkur, - allavega bílana okkar. Þegar við keyrum framhjá þeim á okkar bílum þá haggast þeir ekki.
Og veri þeir bara hjartanlega velkomnir að vera hér áfram,” segir presturinn og þingmaðurinn fyrrverandi.
