Viðskipti innlent

Invent Farma hagnast um 2,3 milljarða

Sæunn Gísladóttir skrifar
Friðrik Steinn Kristjánsson, stofnandi Invent Farma.
Friðrik Steinn Kristjánsson, stofnandi Invent Farma. vísir/ernir
Lyfjafyrirtækið Invent Farma hagnaðist um 17,9 milljónir evra á síðasta ári, jafnvirði 2,3 milljarða íslenskra króna. Hagnaðurinn jókst töluvert en árið 2014 nam hann 8,3 milljónum evra, rúmum milljarði króna.

EBITDA í árslok 2015 nam -353.800 evrum, jafnvirði mínus 45,6 milljóna íslenskra króna, samanborið við -443.000 evrur árið áður.

Eigið fé í árslok nam 55,4 milljónum evra, jafnvirði rúmra sjö milljarða íslenskra króna, og hækkaði töluvert milli ára.

Í árslok 2015 voru tuttugu hluthafar í félaginu. Framtakssjóður Íslands átti stærstan hlut eða 38 prósent og Silfurberg ehf., í eigu Friðriks Steins Kristjánssonar stofnanda fyrirtækisins, átti næststærstan hlut eða 27,27 prósent.

Eins og Fréttablaðið greindi frá var Invent Farma selt á árinu til alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækisins Apax Partners og samkvæmt heimildum var hlutafé fyrirtækisins metið á um 215 milljónir evra, eða 30 milljarða króna. Stærð fyrirtækisins er svipuð og Símans.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×