Viðskipti innlent

EM hafði töluverð áhrif á verslun

Sæunn Gísladóttir skrifar
Birkir Bjarnason og Theódór Elmar Bjarnason eftir sigurleikinn á móti Englandi.
Birkir Bjarnason og Theódór Elmar Bjarnason eftir sigurleikinn á móti Englandi. Vísir/Getty
Verslun í júní var ekki ósnortin af Evrópumeistaramótinu í knattspyrnu og sjá má merki um neyslubreytingar í tengslum við keppnina í Smásöluvísitölu mánaðarins. Íslendingar gerðu vel við sig í mat og drykk í júní en dagvöruverslun var 8,3 prósent meiri en í júní í fyrra og fjöldi seldra lítra í vínbúðunum var 14 prósent meiri en fyrir ári síðan. Sala svokallaðra brúnna raftækja, þar með talið sjónvarpstækja var 30 prósent meiri en í júní 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rannsóknasetri verslunarinnar.

Dagvöruverslun hefur verið afar lífleg það sem af er ári og hefur verslun með dagvöru undanfarna sex mánuði verið 7 prósent meiri en á fyrri helmingi ársins í fyrra. Eins og áður sagði var dagvöruverslun 8,3 prósent meiri í júní síðastliðnum samanborið við sama mánuð í fyrra á breytilegu verðlagi en 7 prósent meiri á föstu verðlagi. Verðlag dagvöru hefur hækkað um 1,2 prósent frá fyrra ári

Áfengisverslun var mikil í júní og var velta áfengisverslunar 26,2 prósent meiri en í júní í fyrra og 14 prósent fleiri lítrar seldir samkvæmt tölfræði Vínbúðanna. Líkt og áður þarf að líta til þess að kerfisbreytingar voru gerðar á gjaldheimtu áfengis um áramótin þegar áfengisgjöld voru hækkuð en virðisaukaskattur lækkaður. Því hækkar velta án VSK, sem Smásöluvísitalan byggir á, meira en velta með VSK.

Mest veltuaukning í júní var í flokki húsganga, 38,6 prósent meira en í júní í fyrra á breytilegu verðlagi. Verðlag húsgagna var 1,5 prósent lægra en á sama tíma í fyrra og jókst velta því um 40,7 prósent á föstu verðlagi á sama tíma.

Margir gripu tækifærið og uppfærðu sjónvarpstæki sín en eins og kom fram í inngangi var um 30 prósent veltuaukning í flokki brúnna/minni raftækja frá sama mánuði í fyrra en flokkurinn inniheldur meðal annars sjónvörp. Minni vöxtur var í veltu annarra raftækja og jókst velta með hvít/stærri raftæki um 3,4 prósent frá fyrra ári og 1,8 prósent meiri verslun var með farsíma samanborið við júní í fyrra á breytilegu verðlagi. Velta í tölvuverslun var 20,6 prósent minni en í júní 2015 en þess ber að geta að í júní í fyrra var verslun með með tölvur óvenju mikil. Verðlag raftækja er nokkuð lægra en í júní 2015 samkvæmt verðlagsmælingum Hagstofunnar  en þess ber að geta að gæðabreytingar raftækja hafa þar nokkuð að segja.

Byggingavöruverslun í júní jókst um 13,1 prósent frá fyrra ári á breytilegu verðlagi. Er um nokkuð minni aukningu að ræða en undanfarna mánuði en síðustu þrjá mánuði á undan var vöxturinn 27,5 prósent borið saman við sömu mánuði árið 2015. Líklegt má telja að EM í knattspyrnu hafi haft letjandi áhrif á byggingaframkvæmdir landsmanna en skal þó ósagt hve mikil áhrif mótið hafði á vísitölu mánaðarins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×