Innlent

„Viðkvæm náttúruperla á heimsvísu er undir“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Mývatn er einstök náttúruperla en lífríki vatnsins er í hættu.
Mývatn er einstök náttúruperla en lífríki vatnsins er í hættu. vísir/gva
„Viðkvæm náttúruperla á heimsvísu er undir og afleiðingar aukins straums ferðamanna með tilheyrandi álagi á náttúruna eru kannski að birtast okkur hér með hvað skýrustum hætti.“

Þetta segir í tilkynningu Jóns Gunnarssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem hann hefur sent til fjölmiðla um ástandið í Mývatni.

Í vikunni sendi Landvernd bréf á Sigurð Inga Jóhannssonar, forsætisráðherra, þar sem skorað er á ríkisstjórnina að grípa tafarlaust til aðgerða til að verna lífríki Mývatns og aðstoða Skútustaðahrepp til að koma fráveitumálum sveitarfélagsins í ásættanlegt horf. Þá hafa veiðifélög Laxár og Krakár líkt ástandinu í vatninu við neyðarástand sem bregðast þurfi strax við.

Jón er sammála Landvernd í þeim efnum að grípa þurfi til aðgerða og vill hann að brugðist verði við með sama hætti og þegar brugðist er við náttúruhamförum af fullum þunga:

„Skipa verður hóp sérfræðinga sem greinir vandann og kemur með tillögur um úrbætur. Fámennt sveitarfélag ræður ekki við verkefnið og því verður ríkisstjórnin/þingið að tryggja það fjármagn sem til þarf Það má engu til spara og sumarið má ekki líða án þess að það sé notað til þeirra framkvæmda sem nauðsynlegar eru.“

Þá segir hann málið ekki þola neina bið auk þess sem það brýni einnig mikilvægi umræðu um gjaldtöku í ferðaþjónustunni.


Tengdar fréttir

Landvernd ákallar stjórnvöld um að bjarga lífríki Mývatns

Landvernd hefur skrifað forsætisráðherra og skorað á ríkisstjórn hans að bregðast við skuggalegu ástandi lífríkis Mývatns. Náttúran skuli njóta vafans og sveitarfélagið aðstoðað við þær aðgerðir sem í mannlegu valdi standa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×